Íslenska málmleitarfélagið Amaroq Minerals hefur gert nokkra lykilsamninga í tengslum við væntanlega gullframleiðslu í Nalunaq, sem áætlað er að hefjist á fjórða ársfjórðungi 2024.
Meðal þeirra er sölusamningur við Auramet International, en í honum felst að Auramet kaupir allt gull sem framleitt verður í Nalunaq-gullnámu félagsins á Suður-Grænlandi.
Í árshlutauppgjöri félagsins sem birtist í gær kom fram að allri jarðvinnu og mannvirkjagerð á byggingarstað verksmiðjunnar í Nalunaq væri lokið.
Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq, sagði jafnframt að gullframleiðslan muni byrja að skila félaginu tekjuflæði á fjórða ársfjórðungi samhliða því að unnið verði upp í fulla framleiðslu.
Í kauphallartilkynningu félagsins segir að auk þess muni Aurmet bjóða upp á ýmsa fjármögnunarmöguleika sem munu auka fjárhagslegan sveigjanleika félagsins.
„Við erum afar ánægð með að ganga frá þessum mikilvægu samningum við stönduga og reynslumikla samstarfsaðila, sem munu veita okkur þann stuðning og sérfræðiþekkingu til að tryggja farsæla vinnslu og sölu gullsins frá Nalunaq á samkeppnishæfum kjörum. Það er einnig gleðilegt að segja frá því að við munum verða í samstarfi við breska vinnslustöð um að bjóða Grænlendingum upp á að kaupa gull beint frá Nalunaq. Við hlökkum til árangursríks samstarfs við þessa aðila til framtíðar,“ segir Ellert Arnarson, fjármálastjóri Amaroq.
Amaroq hefur einnig samið við Metalor Technologies SA, sem sérhæfir sig í mati og vinnslu góðmálma í vinnslustöð sinni sem staðsett er í Zurich, Sviss.
Metalor mun fullvinna þær gullstangir sem framleiddar verða í Nalunaq.