Íslenska hugbúnaðarhúsið Gangverk hlaut á dögunum verðlaun fyrir bestu framsetningu á gögnum, eða „best use of data visualisation“, á Lovie-verðlaunahátíðinni. Hátíðin, sem var haldin í fjórtánda skipti, er evrópsk verðlaunahátíð þar sem stafrænar lausnir eru verðlaunaðar í mörgum flokkum. Þar er lögð sérstök áhersla á svið menningar, tækni og viðskipta.
Verðlaunin hlaut Gangverk fyrir verkefni sem það vann fyrir tónlistarþjónustuna Last.fm, sem stofnuð var árið 2002 og er í dag hluti af Paramount.
Basta, dótturfélag Gangverks, hlaut einnig verðlaun árið 2022, á Webbie-verðlaunahátíðinni, fyrir bestu nýtingu á tækni, „best use of technology“, fyrir Joopiter.com, uppboðshús Pharrell Williams. Lovie-verðlaunin og Webby-verðlaunin voru bæði stofnuð af International Academy of Digital Arts and Sciences.
Höfðu unnið með Last.fm áður
Í stuttu máli er Last.fm þjónusta sem heldur utan um tónlistarspilunargögn, þar sem notendur geta tengt þær veitur sem það notar til að hlusta á tónlist við Last.fm reikninginn sinn. Þannig er hægt að sjá, þvert á veitur, á hvaða listafólk notandinn hlustar, tegund tónlistarinnar, og í kjölfarið fengið meðmæli á listafólk til að hlusta á.
Verkefnið fól í sér að skapa gagnvirka upplifun sem notar gagnagreiningu til að sýna notendum yfirlit yfir tónlistarhlustun sína yfir árið, á svipaðan hátt og Spotify gerir með ársuppgjörin sín.
Anna Berglind Finnsdóttir, sem leiddi verkefnið, lýsir verkefninu sem „samstarfsverkefni þar sem Last.fm sá um grunnhönnunina og Gangverk kom að með sérfræðiþekkingu sína í forritun og hreyfigrafík.
„Við höfum áður unnið verkefni fyrir Last.fm, að vísu löngu fyrir mína daga hjá fyrirtækinu, þegar við smíðuðum ios appið fyrir þau, á árdögum Gangverks.“
Milliaðili milli hönnunar og forritunar
Snær Friðriksson hönnuður hjá Gangverki sá um hreyfigrafík verkefnisins, og sá um að lífga upp á framsetningu gagnanna.
„Ég fékk stillmyndir frá Last.fm og bjó til hreyfingar úr þeim. Þetta er allt frá því hvernig tölulegar upplýsingar birtast, hvernig skjáir skiptast á milli, stýra tempóinu, og almennt útlit og tilfinning, svo notendaupplifunin verði sem best. Það mætti segja að ég sé milliaðili, milli hönnunar og forritunar, sem lífgar þetta við.“