Jóhanna Helgadóttir, eigandi Mathúss Garðabæjar, segir að mikil uppsveifla hafi myndast í bæjarfélaginu í kjölfar greinar sem birtist í Viðskiptamogganum í nóvember á síðasta ári. Á þeim tíma hvöttu forsvarsmenn Mathússins Garðbæinga til að auka viðskipti sín við veitingastaði í bænum.

Umræða um veitingastaði í Garðabænum hefur oft sprottið upp en lengi vel var IKEA eini staðurinn í bænum þar sem Garðbæingar gátu keypt sér mat, bjór og léttvín og hafa margir talið að úrvalið mætti vera fjölbreyttara.

„Við sem Garðbæingar tókum þetta rosalega til okkar og það myndaðist mikil umræða eftir að þessi frétt birtist. Það þýðir ekki bara að hafa stað nálægt, þú þarft líka að mæta á hann og hvort sem þú vilt horfa á boltann eða fá þér mat þá getur þú ekki ætlast til að staðurinn bíði endalaust eftir þér,“ segir Jóhanna.

Hún segir að margir hafi mætt og tekið það sérstaklega fram að þau vildu koma til að styðja við veitingastaði bæjarins. Veitingamenn hafi tekið vel í það enda eru náin tengsl milli veitingamanna Garðabæjar og viðskiptavina.

„Kúnnahópurinn okkar eru 95-97% Íslendinga. Það læðist kannski einn og einn túristi á leiðinni út á flugvöll en flestir sem koma hingað þekkja alla hina. Við köllum okkur oft Staupastein Garðabæjar, því það koma svo oft Garðbæingar hingað inn og þeir þekkja alltaf fimm eða sjö sem eru á staðnum.“

Á undanförnum mánuðum hefur ákveðin uppsveifla orðið í veitingarekstri í Garðabæ en í janúar opnaði til að mynda sportbarinn Geitin í Urriðaholti. Nafn staðarins kemur úr lýsingarorðinu geitin (e. GOAT – Greatest of All Time) og þjónustar hann bæði heimamenn og þá sem eiga leið fram hjá.

„Við erum að fá rosa mikið af fólki sem vill hittast miðsvæðis. Það er algengt að fólk haldi hér viðskiptafundi því það er mjög þægilegt ef fólk er að koma úr Hafnarfirði, miðbænum, Kópavogi og út um allt. Í bænum tekur það 20 mínútur að finna stæði en hér færðu strax stæði og þarft ekkert að borga.“

Jóhanna segir að Garðabærinn sé hægt og rólega að breytast í ákveðið miðsvæði og að bærinn sé ekki lengur einhver svefnbær. „Það eru líka bara mörg fyrirtæki sem vilja bara komast að og vera með verslun á Garðatorgi en það eru engin laus pláss.“