Gasverð í Evrópu hækkaði töluvert í gær og náði tveggja ára hámarki vegna kuldakasts í álfunni sem jók eftirspurn.
Verð á framvirkum samningum tengdum evrópska staðalnum TTF í Amsterdam hækkaði um allt að 4,5 prósent og fór upp í 58,50 evrur á megavattstund, sem er hæsta verð síðan í febrúar 2023.
Framvirkir samningar með gas í Bretlandi hækkuðu einnig með sambærilegum hætti og fóru í 42,20 pens/therm, sem er líka tveggja ára hámark.
Langvarandi kuldaveður um norðvesturhluta Evrópu ýtir venjulega eftir meiri húshitun sem reynir á varabirgðir álfunnar af gasi. Birgðirnar eru þó nú af skornum skammti og hafa ekki verið minni síðan í orkukrísunni 2022.
Evrópa hefur nú lifað af tvo vetur eftir innrás Rússa í Úkraínu með því að kaupa fljótandi jarðgas (LNG) frá öðrum heimshlutum. Á síðasta ári nam fljótandi jarðgas um 34 prósent af öllu gasi álfunnar, samanborið við 20 prósent árið 2021.
Varabirgðirnar voru þó fullar þegar veturinn hófst en Evrópulöndin hafa þurft að taka meira á birgðunum ásamt því að samkeppnin um fljótandi jarðgas á heimsvísu hefur aukist.
Samkvæmt fréttFinancial Times drógust varabirgðirnar saman um 19% milli september og desember í fyrra sem er mun meira en síðustu ár.
Rússneskt gas, sem enn rann til álfunnar gegnum Úkraínu í fyrra, nam um 5% af öllum innflutningi í Evrópu en skrúfað var fyrir þær gaspípur í byrjun árs.
„Þetta þýðir að breytingar á veðurlagi geta haft mjög dramatísk áhrif á verð, þar sem kaupmenn reikna með auknu álagi á varabirgðirnar,“ segir Natasha Fielding, framkvæmdastjóri orkuviðskipta hjá Argus.
Samkvæmt FT benda spár til þess að „samfellt kuldakast verði um Evrópu og hluta Norðaustur-Asíu frá og með seinni hluta þessa árs” og segir Natasha að samkeppni Evrópu við Asíu um jarðgas verði enn harðari á komandi árum.