Gas­verð í Evrópu hækkaði tölu­vert í gær og náði tveggja ára há­marki vegna kulda­kasts í álfunni sem jók eftir­spurn.

Verð á fram­virkum samningum tengdum evrópska staðalnum TTF í Amsterdam hækkaði um allt að 4,5 pró­sent og fór upp í 58,50 evrur á mega­vatt­stund, sem er hæsta verð síðan í febrúar 2023.

Fram­virkir samningar með gas í Bret­landi hækkuðu einnig með sam­bæri­legum hætti og fóru í 42,20 pens/therm, sem er líka tveggja ára há­mark.

Lang­varandi kulda­veður um norðvestur­hluta Evrópu ýtir venju­lega eftir meiri hús­hitun sem reynir á vara­birgðir álfunnar af gasi. Birgðirnar eru þó nú af skornum skammti og hafa ekki verið minni síðan í orku­krísunni 2022.

Evrópa hefur nú lifað af tvo vetur eftir inn­rás Rússa í Úkraínu með því að kaupa fljótandi jarð­gas (LNG) frá öðrum heims­hlutum. Á síðasta ári nam fljótandi jarð­gas um 34 pró­sent af öllu gasi álfunnar, saman­borið við 20 pró­sent árið 2021.

Vara­birgðirnar voru þó fullar þegar veturinn hófst en Evrópulöndin hafa þurft að taka meira á birgðunum ásamt því að sam­keppnin um fljótandi jarð­gas á heims­vísu hefur aukist.

Sam­kvæmt fréttFinancial Times drógust vara­birgðirnar saman um 19% milli septem­ber og desember í fyrra sem er mun meira en síðustu ár.

Rúss­neskt gas, sem enn rann til álfunnar gegnum Úkraínu í fyrra, nam um 5% af öllum inn­flutningi í Evrópu en skrúfað var fyrir þær gaspípur í byrjun árs.

„Þetta þýðir að breytingar á veður­lagi geta haft mjög dramatísk áhrif á verð, þar sem kaup­menn reikna með auknu álagi á vara­birgðirnar,“ segir Natasha Fielding, fram­kvæmda­stjóri orku­við­skipta hjá Argus.

Sam­kvæmt FT benda spár til þess að „sam­fellt kulda­kast verði um Evrópu og hluta Norðaustur-Asíu frá og með seinni hluta þessa árs” og segir Natasha að sam­keppni Evrópu við Asíu um jarð­gas verði enn harðari á komandi árum.