Gasverð í Evrópu hefur hækkað um meira en 10% það sem af er degi og hefur nú hækkað um meira en þriðjung í vikunni eftir að rússneska ríkisolíufyrirtækið Gazprom tilkynnti í byrjun vikunnar að gasflæði í Nord Stream 1 leiðslunni yrði skert um helming.
Verð á framvirkum samningum sem eru tengdir við TTF, vísitölu yfir heildsöluverð á jarðgasi í Evrópu, fór upp í 220 evrur á megavattstund í morgun. Útlit er fyrir að verðið endi daginn í methæðum en síðasta metið var slegið í byrjun mars, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Gasverð er nú nærri tífalt hærra en áður en Rússar byrjuðu að minnka framboð á síðasta ári, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Frá og með deginum í dag fer daglegt gasflæði í Nord Stream 1 niður í 33 milljónir rúmmetra eða um 20% af flutningagetu gasleiðslunnar. Gazprom skerti fyrst gasflæði í Nord Stream 1 niður í 40% af flutningagetu í síðasta mánuði.
Aðildarríki Evrópusambandsins komust að samkomulagi í gær um að draga úr notkun jarðgass um 15% til að bæta birgðastöðu fyrir veturinn.