Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar verða endurgerð í júlí og verða aðliggjandi götur og gangstéttir þá aðlagaðar í leiðinni. Umferðarljós og gatnalýsing verða einnig endurnýjuð ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum.

Aðgerðirnar snúast meðal annars um öryggisatriði gangandi og hjólandi vegfarenda bæði á gatnamótunum og við gönguþverun yfir Háaleitisbraut.

Til stóð að byrja framkvæmdir á síðasta misseri en því var frestað. Þótti júlímánuður þá vera besti kosturinn með tilliti til umferðarflæðis, til að loka Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar til að leggja hitaveitulagnir.

Í tilkynningu segir að gönguþverun verði á Háaleitisbraut við strætóbiðstöðvar til móts við Álmgerði og Efstaleiti. Strætóbiðskýlin þar verða færð til og endurnýjuð og verður gatan þrengd í eina akrein í hvora átt milli biðstöðva.

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður síðan bætt með aðskildum göngu- og hjólastígum að hluta um gatnamótin og endurnýjaðri ljósastýringu.

Framkvæmdin er á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í samvinnu við Veitur. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn og hefur verktakinn Stjörnugarðar ehf. verið ráðinn í verkefnið.