Fjárfestingafélagið Gavia Invest ehf. hefur keypt 14,95% hlut í fjarskiptafélaginu Sýn og er þar með orðið stærsti hluthafi félagsins. Miðað við markaðsgengi Sýnar í morgun nemur kaupverðið um 2,6 milljörðum króna. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu til Kauphallarinnar.
Gavia Invest er í eigu InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf., sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andra Gunnarssonar og Mark Kroloff, og Pordoi ehf., fjárfestingafélags Jóns Skaftasonar. Í flöggunartilkynningu segir að Jón sé fyrirsvarsmaður Gavia.
Sjá einnig: Heiðar selur allt í Sýn og hættir sem forstjóri
Í morgun var tilkynnt að Heiðar Guðjónsson muni láta af störfum sem forstjóri Sýnar fyrir lok þessa mánaðar og að hann hafi selt allan 12,7% hlut sinn í fjarskiptafélaginu fyrir ríflega 2,2 milljarða króna.
InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, er einn stærsti hluthafi Creditinfo með 38% hlut. Reynir, stofnandi og fyrrum forstjóri Creditinfo, seldi á síðasta ári meirihluta í fyrirtækinu til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Síðan þá hefur Reynir fjárfest í Kviku banka, Arion banka og Icelandair. InfoCapital á 1,03% hlut í Icelandair og 1,02% í Icelandair samkvæmt listum yfir 20 stærstu hluthafa félaganna.
E&S 101 er fjórði stærsti hluthafi fasteignafélagsins Kaldalóns, sem er skráð á First North-markaðinn. Jonathan B. Rubini, ríkasti maður Alaska-fylkis í Bandaríkjunum, fjárfesti fyrst í félaginu fyrir um 360 milljónir í júní á síðasta ári. Framangreindur Jón Skaftason sat í stjórn Kaldalóns um tíma en hætti þar á síðasta ári