Fjárfestingarfélagið Gavia Invest ehf., stærsti hluthafi Sýnar, stækkaði hlut sinn í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu í hádeginu í dag, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Kaupin koma degi eftir markaðsdag Sýnar, sem fór fram eftir hádegi í gær.
Gavia keypti hlutabréf í Sýn fyrir 60 milljónir króna. Félagið keypti 2 milljónir hluta á genginu 30,0 krónur á hlut. Eftir viðskiptin á Gavia 45.147.128 hluti, eða um 18,2% eignarhlut í Sýn sem er hátt í 1,4 milljarðar króna að markaðsvirði.
Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, og Ragnar Páll Dyer, stjórnarmaður í Sýn, sitja báðir í stjórn Gavia. Þeir starfa báðir sem framkvæmdastjórar hjá fjárfestingarfélaginu InfoCapital sem á 80,7% hlut í Gavia. InfoCapital er í 97% eigu Reynis Grétarssonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra CreditInfo.
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega á dögunum um fjárfestingu Gavia Invest í Sýn sumarið 2022.
Ragnar kaupir fyrir 6 milljónir
Samhliða kaupum Gavia keypti Ragnar Páll Dyer hlutabréf í Sýn fyrir 6 milljónir króna í gegnum félagið sitt H33 Invest ehf., að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Ragnar keypti 200 þúsund hluti á genginu 30 krónur á hlut.
Ragnar, sem er fyrrverandi fjármálastjóri Kviku banka, tók sæti í stjórn Sýnar á aðalfundi félagsins í vor.
Þetta eru önnur kaup H33 Invest í Sýn sem tilkynnt hafa verið til Kauphallarinnar á árinu. H33 keypti síðast hluti í Sýn í lok maí síðastliðnum, þá 200 þúsund hluti fyrir 7,5 milljónir króna.