Fjárfestingarfélagið Gavia Invest ehf., stærsti hluthafi Sýnar með 17,4%, tapaði 637 milljónum króna árið 2023 samanborið við 316 milljóna tap árið 2022.
Tap félagsins í fyrra skýrist að mestu leyti af 547 milljóna króna lækkunar á virði eignarhlutar félagsins í Sýn. Þá námu hrein fjármagnsgjöld félagsins yfir hundrað milljónum króna.
Veittu 440 milljóna hluthafalán.
Gavia Invest var í lok síðasta árs í 80,7% eigu InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis Grétarssonar, 16,7% eigu E&S ehf., félags Jonathans R. Rubini, Andra Gunnarssonar og Mark Kroloff, og 2,7% eigu Pordoi, félags Jóns Skaftasonar, sem lét af störfum sem stjórnarformaður Sýnar í vor.
Eignir Gavia námu 2.165 milljónum króna í árslok 2023. Skuldir félagsins námu 1.618 milljónum króna í lok síðasta árs, samanborið við 1,4 milljarða ári áður. Eigið fé var um 547 milljónir.
Eigendur Gavia lögðu félaginu til 1,5 milljarða króna í hlutafé árið 2022 og félagið fékk lán frá lánastofnunum upp á liðlega 1,4 milljarða króna sama ár. Á síðasta ári greiddi Gavia niður lán frá lánastofnunum að fjárhæð 278 milljónir króna. Hins vegar veittu hluthafar félaginu hluthafalán upp á 440 milljónir króna.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar. Fjallað er ítarlega um fjárfestingu Gavia í Sýn árið 2022 og helstu breytingar í rekstri Sýnar síðan þá.