Icelandair segir ekki tímabært að gefa upp hvaða íslenska stéttafélag það muni leita til eftir að kjaraviðræður við Flugfreyjufélag Íslands slitnuðu fyrr í dag . Flugfélagið segist vera að skoða ýmsa möguleika en tekur þó fram að um sé að ræða íslenskt stéttafélag.

Í fyrri fréttatilkynningu Icelandair kom fram að flugmenn félagsins munu frá og með mánudeginum 20. júlí starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Félagið segir að það verði um fjórir til sex flugmenn í þessari stöðu í hverju flugi en það muni fara eftir flugvélategund. Það sé sami fjöldi flugfreyja og flugþjóna eins og lög gera ráð fyrir í hverju flugi.

Flugstéttafélagið ekki í viðræðum við Icelandair

Vignir Örn Guðnason, flugmaður og formaður Íslenska flugstéttafélagsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið sé ekki í viðræðum við Icelandair og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í maí sagði Vignir í samtali við Mannlíf að félagið hafi ekki átt í viðræðum við Icelandair en þó séu allir velkomnir. Félagið hafi þó samið við flugfélagið Play.

„Þetta eru góðir og gildir kjarasamningar sem við erum mjög sátt með. Við höfum ekki rætt við einn eða neinn um komuna til okkar. Við getum hins vegar alveg verið önnur leið fyrir Icelandair því við erum löggilt stéttarfélag. Við gætum alveg verið kostur og erum alveg tilbúin til umræðu en við erum ekki í formlegum samræðum. Sé til okkar leitað vísum við engum frá enda bjóðum við alla velkomna,“ er haft eftir Vigni í frétt Mannlífs.