Nýr íþróttabar opnar formlega á föstudaginn kemur en hann er staðsettur í Urriðaholti og heitir Geitin Garðabæ. Nafnið kemur frá lýsingarorðinu geitin (e. GOAT – Greatest of All Time) og munu nokkrar af bestu stjörnum íþróttasögunnar meðal annars prýða veggi barsins.

Natan Þór Elvarsson, einn af eigendum barsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hugmyndin hafi komið til þegar húsnæðið fór á sölu og ákváðu þá hann og pabbi hans, Elvar Ingimarsson, að opna sportbar.

Bróðir Elvars, Ómar Ingimarsson, tók einnig þátt í verkefninu hann átti meðal annars barinn Gummi Ben sem opnaði árið 2019.

„Þetta verður bara líflegur sportbar þar sem við munum bjóða íþróttaáhugamönnum og fólki sem vill horfa á leikina með besta útsýni og á bestu sjónvörpunum. Við verðum líka með pílu og tónlistarviðburði og svo verður líflegt um helgar,“ segir Natan en Geitin er meðal annars með vínveitingaleyfi til klukkan 03:00 um helgar.

Staðurinn var nýlega með svokallaða mjúka opnun þar sem nokkrir fengu að koma og prufa staðinn en Elvar segir að formleg opnun verði á föstudaginn þegar Ísland spilar sinn fyrsta landsleik gegn Serbíu í handbolta á EM.

„Vanalega þegar fólk heyrir orðið sportbar þá er það pínu „skítugt“ orð, en staðurinn hér og barinn er mjög nútímalegur þannig þetta verður mjög flottur staður. Svo bjóðum við líka upp á bestu hamborgara, pizzur, vængi og allt og verðum með fimm bjóra á dælu og ískalda Guinness.“

Á veggjum Geitarinnar má einnig finna helstu geitur á borð við Schumacher, Messi, Ronaldo og Muhammad Ali. Þar að auki er Van Persie-plakat og áritaðar treyjur frá Ronaldo og Steven Gerrard.