Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands telur of tíð skipti milli stjórnarmanna til að gegna formennsku í stjórnum lífeyrissjóða geti dregið úr skilvirkni stjórnar og þannig ekki til þess fallin að þjóna hagsmunum sjóðsfélaga eins og best verður á kosið.
Þetta kemur fram í dreifibréfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til stjórna íslenskra lífeyrissjóða. Í bréfinu er bent á að í sumum lífeyrissjóðum sé sá háttur hafður á að fulltrúar atvinnurekenda og launamanna hafi á hendi formennsku og varaformennsku til skiptis, ýmist til eins eða tveggja ára í senn. Í ljósi ofangreinds mats eftirlitsins um að fyrirkomulagið geti dregið úr skilvirkni stjórnar telur það tilefni til að beina því til umræddra lífeyrissjóða að endurskoða þetta fyrirkomulag með það að leiðarljósi að hafa lengri samfellu í störfum stjórnarformanns, t.d. að lágmarki tvö ár.
Vill tilnefningarnefndir fyrir stjórnir lífeyrissjóða
Í umræðuskýrslu sem birt var á heimasíðu Seðlabanka Íslands í október á síðasta ári kom fram að bankinn teldi að samræma þurfi hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða því sem almennt gildir á fjármálamarkaði. Sambærilegt ákvæði ætti að vera í lögum um lífeyrissjóði um tilnefningarnefndir og er í lögum um fjármálafyrirtæki. Seðlabankinn telji brýnt að sett verði ákvæði í lög um lífeyrissjóði þess efnis að stjórnir séu sjálfstæðar og að í störfum sínum sé þeim einungis heimilt að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi til samræmis við ákvæði laga um lífeyrissjóði.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.