Hlutabréfaverð Alvotech hefur lækkað um 3,4% í 8 milljóna króna viðskiptum á íslenska First North-markaðnum í dag og stendur nú í 906 krónum á hlut. Gengi líftæknifyrirtækisins hefur aldrei verið lægra á íslenska markaðnum og hefur alls fallið um ríflega þriðjung frá skráningu í lok júní.
Hlutabréf Alvotech, sem eru tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum, stóð í 6,09 dölum á hlut við lokun Nasdaq kauphallarinnar í New York í gær. Alvotech hefur lækkað um 6% í fyrstu viðskiptum á bandaríska markaðnum í dag og stendur nú í 5,88 dölum. Hlutabréfaverð Alvotech hefur því fallið um meira en 40% frá 10 dala útboðsgenginu.
Dagslokagengi Alvotech, sem var skráð á bandaríska markaðinn um miðjan júní síðastliðinn, fór lægst í 5,53 dali þann 15. júlí.