Hluta­bréfa­verð Amaroq hefur hækkað um rúm 3 % í morgun og hefur gengi félagsins aldrei verið hærra.

Hæsta dagsloka­gengi félagsins var í byrjun marsmánaðar er gengið stóð í 150,5 krónum við lokun markaða. Gengið stendur í 152 krónum þegar þetta er skrifað.

Málm­leitarfélagið greindi frá því fyrir opnun markaða að félagið fengi endan­legt leyfi frá stjórn­völdum í Græn­landi fyrir gang­setningu á 1. áfanga vinnslu­stöðvar félagsins á miðviku­daginn.

Vinnslu­stöðin hefur síðan starfað á fullum af­köstum og fram­leiddi fyrsta gullið í gær.

Amaroq fram­leiddi um 1,2 kílógramm af gulli (39 troy-únsur) eftir að vinnsla hafði staðið yfir í 10 klukku­stundir.

„Fyrsta fram­leiðsla á gulli í Nalunaq er stór áfangi í okkar veg­ferð, sér í lagi þar sem náman mun nú hefja tekju­myndun. Eftir því sem náman færist úr fjár­festingarfasa yfir í rekstur munu áherslur okkar snúa að því að auka við gull­magn og þar með líftíma námunnar, sem og áfram­haldandi rannsóknir til að raun­gera enn frekar virði eigna­safns okkar í Græn­landi,” segir Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq Minerals.