Gengi hlutarbréfa Arion banka hækkaði um 2,29% í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni og gengi Kviku banka um 0,79%. Lítil viðskipti liggja þó að baki en velta fyrstu viðskipta með bréf fyrrnefnds banka námu 12 milljónum en var 8 milljónum hærri hjá Kviku banka.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi hafa Arion banki og Kvika banki hafið samrunaviðræður og um leið hafnaði stjórn Kviku beiðni stjórnar Íslandsbanka um samrunaviðræður. Gengi Íslandsbanka lækkaði um 1,27% í fyrstu viðskiptum, en velta viðskipta námu aðeins 6 milljónum króna.

Athygli vekur að gengi hlutabréfa Skaga hefur hækkað um 2,15% í 66 milljóna króna viðskiptum. Íslandsbanki hefur ekki farið í grafgötur með áhuga sinn á ytri vexti og hefur orðrómur um yfirtöku á Skaga í heild, eða kaup á tryggingafélaginu VÍS út úr Skaga samstæðunni, verið nefnt í því samhengi.

Þegar þetta er skrifað stendur gengi Arion banka í 178,5 krónum á hlut og gengi Kviku í 19,15 krónum á hlut. Í viðræðum um sameiningu félaganna er lagt til grundvallar að viðskiptagengið verði 19,17 krónur á hvern hlut í Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka í væntum samruna. Þannig munu hluthafar Kviku eignast 485.237.822 nýja hluti í sameinuðu félagi sem jafngildir 26% hlut.