Gengi rafmyntarinnar Bitcoin fór yfir 82 þúsund dali í morgun og hefur gengið aldrei verið hærra. Sé miðað við skiptigengi á krónu og dal er virði Bitcoin um 11,4 milljónir íslenskra króna.
Fjárfestar á rafmyntamarkaði hafa verið að fagna kosningasigri Donald Trump en vonir standa til að hann verði viljugri til að losa um höft og hömlur tengdum rafmyntaviðskiptum.
Fjárfestingastjóri AJ Bell, Russ Mould, sagði í bréfi til fjárfesta í morgun að þrátt fyrir að Bitcoin væri alltaf líklegt til að njóta góðs af sigri Trump þá séu aðrir þættir einnig að hafa áhrif.
„Það unnust stórir sigrar í öðrum kosningabaráttum og hefur þingmönnum fjölgað sem eru jákvæðir gagnvart rafmyntaviðskipum. Í þessu samhengi má helst nefna einn mesta andstæðing rafmynta og form bankanefndar öldungadeildarinnar, Sherrod Brown, sem tapaði þingsæti sínu fyrir Bernie Moreno sem er hliðhollur rafmyntaviðskipum,“ segir í bréfi Mould.
Samkvæmt The Wall Street Journal eyddi rafmyntaiðnaðurinn um 170 milljónum bandaríkjadala í að styrkja framboð Moreno.
Trump hefur lofað að losa um höft í kringum rafmyntir samhliða því að hann vill að hluti af gjaldeyrisforða ríkisins verði í Bitcoin.
Repúblikanaflokkurinn hafði betur í báðum deildum þingsins í nýafstöðnum kosningum og því er líklegt að Trump muni fá sínu framgengt.
Samkvæmt WSJ er þingið nú fullt af þingmönnum, ungum sem öldnum, sem telja að rafmyntir séu einstakur eignaflokkur sem á ekki að sæta sama eftirliti og verðbréf.