Gengi raf­myntarinnar Bitcoin fór yfir 82 þúsund dali í morgun og hefur gengið aldrei verið hærra. Sé miðað við skipti­gengi á krónu og dal er virði Bitcoin um 11,4 milljónir ís­lenskra króna.

Fjár­festar á raf­mynta­markaði hafa verið að fagna kosninga­sigri Donald Trump en vonir standa til að hann verði viljugri til að losa um höft og hömlur tengdum raf­mynta­við­skiptum.

Fjár­festinga­stjóri AJ Bell, Russ Mould, sagði í bréfi til fjár­festa í morgun að þrátt fyrir að Bitcoin væri alltaf lík­legt til að njóta góðs af sigri Trump þá séu aðrir þættir einnig að hafa áhrif.

„Það unnust stórir sigrar í öðrum kosninga­baráttum og hefur þing­mönnum fjölgað sem eru jákvæðir gagn­vart raf­mynta­við­skipum. Í þessu sam­hengi má helst nefna einn mesta and­stæðing raf­mynta og for­m banka­nefndar öldunga­deildarinnar, Sher­rod Brown, sem tapaði þingsæti sínu fyrir Berni­e Mor­eno sem er hliðhollur raf­mynta­við­skipum,“ segir í bréfi Mould.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eyddi raf­mynta­iðnaðurinn um 170 milljónum bandaríkja­dala í að styrkja framboð Mor­eno.

Trump hefur lofað að losa um höft í kringum raf­myntir sam­hliða því að hann vill að hluti af gjald­eyris­forða ríkisins verði í Bitcoin.

Repúblikana­flokkurinn hafði betur í báðum deildum þingsins í nýaf­stöðnum kosningum og því er lík­legt að Trump muni fá sínu fram­gengt.

Sam­kvæmt WSJ er þingið nú fullt af þing­mönnum, ungum sem öldnum, sem telja að raf­myntir séu ein­stakur eigna­flokkur sem á ekki að sæta sama eftir­liti og verðbréf.