Gengi bréfa Sýnar hækkaði um rúm 3% á aðalmarkaði í dag, og hefur hækkað um 9,5% frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Viðskipti með bréf félagsins námu 291 milljónum króna í dag og stendur dagslokagengið í 32,4 krónum á hlut.

Gengi bréfa Sýnar hefur heilt yfir lækkað um þriðjung frá áramótum.

Mestu viðskiptin voru með bréf Marels, upp á 1,1 milljarð króna. Gengi Icelandair hækkaði lítillega og gengi Amaroq hækkaði um 1,4% í 200 milljóna veltu.

Á hinum enda markaðarins eru Brim og Hampiðjan þar sem gengi bréfa félaganna lækkaði um 3% og 4%. Bæði félögin birtu uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% í 3,5 milljarða króna veltu í dag.