Hluta­bréfa­verð Festi hefur hækkað um 7% í 241 milljón króna við­skiptum í morgun en sam­stæðan birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Stærstu við­skiptin í dag voru utan­þings­við­skipti með um 600 þúsund hluti á genginu 240 krónur sem sam­svarar um 144 milljón króna við­skiptum.

Gengi félagsins stendur í 246 krónum þegar þetta er skrifað eftir um 22% hækkun á árinu.

Festi hækkaði af­komu­spá sína fyrir árið um 400 milljónir í gærkvöldi eftir að af­koma sam­stæðunnar á þriðja árs­fjórðungi var mun betri en vonir stóðu til en sam­legð með Lyfju, sem kom inn í sam­stæðuna 1. júlí, spilar þar stórt hlut­verk.

Af­koma félagsins fyrir árið er nú áætluð á bilinu 12,7 til 13,1 milljarður króna.

Sam­kvæmt ný­birtu árs­hluta­upp­gjöri sam­stæðunnar nam vöru­sala félagsins 44,2 milljörðum króna og jókst um 6,9 milljarða eða 18,5% milli ára. EBITDA- fjórðungsins var 4,7 milljarðar og hækkar um 836 milljónir eða 21,4% milli ára en 9,3% án áhrifa Lyfju.

Fram­legð af vöru- og þjónustusölu sam­stæðunnar nam 10,8 milljörðum og jókst um rúma 2,2 milljarða eða 26,3% á milli ára. Aukningin var 9,6% án áhrifa Lyfju.