Hlutabréf Icelandair hafa hækkað um meira en 3% í meira en 400 milljóna króna viðskiptum dag og stendur gengi flugfélagsins nú í 1,97 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur ekki verið yfir tvær krónur frá því í lok apríl.

Í gærkvöldi var tilkynnt um að bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital, stærsti hluthafi Icelandair, hefði nýtt áskriftarréttndi og bætt við sig 3,6% hlut í flugfélaginu fyrir 2,3 milljarða króna. Bain fékk kaupréttina sem hluti af kaupsamningi þegar félagið keypti hlutabréf í Icelandair fyrir 8 milljarða króna á genginu 1,43 krónur á hlut sumarið 2021.

Sjá einnig: Bain kaupir fyrir 2,3 milljarða í Icelandair

Hlutabréfaverð Icelandair tók að hækka í byrjun árs og í lok janúar fór það yfir 2,0 krónur á hlut í fyrsta sinn frá hlutafjárútboðinu í september 2020. Eftir innrás Rússa í Úkraínu lækkaði gengið um ríflega þriðjung samhliða miklum verðhækkunum á markaðsverði eldsneytis. Gengi Icelandair fór aftur yfir 2 krónur í lok apríl en lækkaði svo aftur eftir birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,9% það sem af er degi í 1,7 milljarða veltu. Íslandsbanki, sem tilkynnti í gær um 5,9 milljarða hagnað á öðrum ársfjórðungi, hefur hækkað um nærri tvo prósent í viðskiptum dagsins. Gengi bankans stendur nú í 128 krónum.