Hluta­bréfa­verð Icelandair lækkaði um 8% í fyrstu við­skiptum í morgun eftir árs­hluta­upp­gjör fé­lagsins eftir lokun markaða í gær.

Dagsloka­gengi Icelandair var 1,14 krónur í gær og opnaði gengið í 1,05 krónum í morgun en hefur tekið síðan aðeins við sér og stendur í 1,07 krónum þegar þetta er skrifað.

Hluta­bréfa­verð flug­fé­lagsins hefur eytt stórum hluta árs undir einni krónu en tók þó við sér í lok septem­ber­mánaðar, sér í lagi vegna lækkunar á olíu­verði.

Sam­kvæmt upp­gjöri gær­dagsins hagnaðist Icelandair um 69,2 milljónir dala eða um 9,5 milljarða króna á þriðja árs­fjórðungi. Hagnaður fé­lagsins á þriðja fjórðungi dróst saman um 18% frá sama tíma­bili í fyrra.

Tekjur fé­lagsins á fjórðungnum drógust saman um 1,2% milli ára og námu 553 milljónum dala eða um 76 milljörðum króna. EBIT-af­koma flug­fé­lagsins lækkaði um fjórðung milli ára og nam 11,4 milljörðum króna.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, sagði í upp­gjörinu að hann gerði ráð fyrir „veru­legum rekstrar­bata“ á fjórða árs­fjórðungi og á næsta ári þar sem markaðurinn til Ís­lands væri að styrkjast á ný.