Gengi krónunnar hefur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er nú um 10% hærra gagn­vart meðal­tali gjald­miðla helstu við­skipta­landa en þegar það var lægst í lok janúar, sam­kvæmt Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands.

Gengið var síðast á­líka hátt í októ­ber síðast­liðnum en árs­tíðar­leið­rétt hreint greiðslu­korta­flæði tengt ferða­þjónustu hefur haldið á­fram að aukast á árinu.

Skamm­tíma­vaxta­munur gagn­vart út­löndum hefur á sama tíma aukist hratt á árinu og lík­legt er að væntingar um inn­flæði á gjald­eyris­markað í haust vegna ný­legra kaupa er­lendra aðila á inn­lendu líf­tækni­fyrir­tæki hafi stutt enn frekar við gengi krónunnar.

Hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða aukist

„Fram­virk sala á gjald­eyri hefur jafn­framt aukist í sumar þótt hún sé enn minni en hún var á sama tíma í fyrra. Á móti vegur mikill vöru­skipta­halli og þá hafa hrein gjald­eyris­kaup líf­eyris­sjóða verið meiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra,“ segir í Peninga­málum.

Það sem af er þriðja fjórðungi hefur meðal­gengi krónunnar verið tæp­lega 3% hærra en gert var ráð fyrir í síðustu spá Seðla­bankans í maí.

Sam­kvæmt nú­verandi grunn­spá lækkar meðal­gengi krónunnar lítil­lega yfir spá­tímann en er þó heldur hærra en spáð var í maí.

Heimild: Peningamál Seðlabanka Íslands.