Gengi krónunnar hefur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er nú um 10% hærra gagnvart meðaltali gjaldmiðla helstu viðskiptalanda en þegar það var lægst í lok janúar, samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Gengið var síðast álíka hátt í október síðastliðnum en árstíðarleiðrétt hreint greiðslukortaflæði tengt ferðaþjónustu hefur haldið áfram að aukast á árinu.
Skammtímavaxtamunur gagnvart útlöndum hefur á sama tíma aukist hratt á árinu og líklegt er að væntingar um innflæði á gjaldeyrismarkað í haust vegna nýlegra kaupa erlendra aðila á innlendu líftæknifyrirtæki hafi stutt enn frekar við gengi krónunnar.
Hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða aukist
„Framvirk sala á gjaldeyri hefur jafnframt aukist í sumar þótt hún sé enn minni en hún var á sama tíma í fyrra. Á móti vegur mikill vöruskiptahalli og þá hafa hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða verið meiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra,“ segir í Peningamálum.
Það sem af er þriðja fjórðungi hefur meðalgengi krónunnar verið tæplega 3% hærra en gert var ráð fyrir í síðustu spá Seðlabankans í maí.
Samkvæmt núverandi grunnspá lækkar meðalgengi krónunnar lítillega yfir spátímann en er þó heldur hærra en spáð var í maí.
