Hlutabréfaverð líftæknilyfjafélagsins Oculis lækkaði um 4,5% í viðskiptum dagsins en félagið birti árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs eftir lokun markaða.

Um 162 milljóna króna velta var með bréf félagsins í dag en gengið hefur verið á miklu skriði síðastliðinn mánuð.

Í uppgjöri Oculis sagði að framvinda þróunar lyfja hafi verið veruleg á fjórðungnum og býst félagið við því sækja um markaðsleyfi hjá Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) fyrir OCS-01 á fyrsta fjórðungi 2025.

Í uppgjörinu var tekið fram að handbært fé væri um 125 milljónir dala sem tryggir fjármögnun til seinni hluta 2026.

Leiðrétt (non-IFRS) nettótap Oculis nam 64,8 milljónum dala á fyrstu níu mánuðum ársins sem er hækkun úr 40,4 milljónum árið á undan en aukningin stafaði aðallega af klínískum rannsóknum.

Dagslokagengi Oculis var 2.330 krónur.

Síminn leiddi hækkanir

Hlutabréfaverð Símans leiddi hækkanir á aðalmarkaði er gengi fjarskiptafélagsins fór upp um 2,5% í um 164 milljón króna viðskiptum.

Hlutabréfaverð Símans hefur nú hækkað um rúm 31% frá því að María Björk Einarsdóttir tók við sem forstjóri í lok júní.

Dagslokagengi Símans var 12 krónur.

Hlutabréfaverð Marels hækkaði um 1% í um 932 milljón króna viðskiptum í dag.

Dagslokagengi Marels var 600 krónur en meira en tvö ár eru síðan dagslokagengi Marels fór fyrir 600 krónur.

Töluverð velta hefur verið með bréf Marels síðustu daga en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá eru erlendir vogunarsjóðir að kaupa bréf Íslendinga.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,51% og var heildarvelta 4,4 milljarðar.