Afar rólegt var á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam aðeins 650 milljónum króna. Til samanburðar var meðalvelta í kringum 3 milljarðar króna á dag í síðasta mánuði.

Helst ber á góma að hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North-markaðinn, lækkaði um 16,7% í 24 milljóna króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins endaði daginn í 2,0 krónum á hlut og hefur dagslokagengi félagsins aldrei verið lægra frá skráningu fyrir þremur árum síðan.

Flugfélagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær að það hefði fellt afkomuspá sína fyrir árið 2024 úr gildi og að það geri nú ráð fyrir að EBIT-afkoma félagins verði neikvæð í ár. Félagið mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn.

Mesta veltan á hlutabréfamarkaðnum var með hlutabréf fasteignafélagsins Reita sem lækkuðu um 0,6%. Gengi Reita stendur nú í 84 krónum á hlut.