Hluta­bréfa­verð Play hefur lækkað um 4% í ör­við­skiptum í morgun en flug­félagið birti árs­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Gengið stendur í 0,98 krónum þegar þetta er skrifað en hluta­bréfa­verð Play fór síðast undir eina krónu í október í fyrra.

Play tapaði 66 milljónum dala, eða sem nemur 9,2 milljörðum króna, árið 2024, saman­borið við 35 milljóna dala tap árið áður.

Flug­félagið tapaði 39,8 milljónum dala, eða um 5,6 milljörðum króna, á fjórða árs­fjórðungi saman­borið við 17,2 milljóna dala tap á sama tíma árið áður.

Lausa­fjár­staða Play við lok árs 2024 var 23,6 milljónir dala, eða um 3,3 milljarðar króna, borið saman við 21,6 milljónir dala í árs­lok 2023. Eigið fé félagsins var neikvætt um 33,1 milljón dala, eða um 4,6 milljarða króna í árs­lok 2024.

Einar Örn Ólafs­son for­stjóri Play úti­lokaði ekki að félagið myndi þurfa að fara í hluta­fjáraukningu ef markaðsaðstæður breytast.

„Lausafjárstaðan hefur styrkst frá sama tíma á síðasta ári og miklar framfarir orðið í rekstrarhorfum Play. Þó er ekki hægt að útiloka að markaðsaðstæður breytist og að til álita komi að auka hlutafé,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í uppgjörstilkynningu flugfélagsins.

Tekjur Play jukust um 4% á milli ára og voru 292 milljónir dala árið 2024, eða hátt í 41 milljarður króna.

Í upp­gjör­stil­kynningu Play segir flug­félagið skýr merki í upp­gjöri fjórða árs­fjórðungs um að nýtt við­skiptalíkan sem félagið til­kynnti um í haust sé farið að skila bættum árangri.

Um­rædd breyting felur í sér að það leggur nú aukna áherslu á þjónustu til sólar­landaá­fangastaða frá Ís­landi en dregur aftur á móti tölu­vert úr um­svifum tengi­flugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Fram kemur í uppgjörinu að farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fjórða ársfjórðungi jukust um 17% á milli ára, vegna hærra meðalverðs og betri sætanýtingar.

EBIT-afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi batnaði um 4,7 milljónir dala á milli ára og var neikvæð um 15,3 milljónir dala. Bætt EBIT-afkoma á fjórðungnum er rakin til hærri meðaltekna, betri sætanýtingar og aðhaldsaðgerða.