Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 17% í fyrstu viðskiptum í morgun og stendur gengið í 0,77 krónum þegar þetta er skrifað.
Um 23 einstök örviðskipti er að ræða og heildarvelta með bréf félagsins í morgun var um þrjár milljónir.
Play var athugunarmerkt í Kauphöllinni í vikunni. Kauphöllin sendi tilkynningu í morgun þar sem hún sagði ástæðuna fyrir merkingunni vera að gera markaðnum viðvart um að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi er varðar félagið eða hlutabréf þess sem fjárfestar ættu að kynna sér.
Um er að ræða ábendingu um að í skýrslu stjórnar kemur fram að ef markaðsástæður breytast gæti þurft að fara í hlutafjáraukningunni.
Kauphöllin tekur fram að ástæður athugunarmerkinga geta verið mjög misjafnar eftir aðstæðum.
Athugunarmerkingar vara yfirleitt í takmarkaðan tíma.
„Rétt er að ítreka að í athugunarmerkingunni felst ekki mat Nasdaq Iceland á rekstrarhæfi félagsins heldur er hún gerð til að vekja athygli á ábendingu endurskoðandans.“
Play birti árshlutauppgjör á mánudaginn flugfélagið tapaði 66 milljónum dala, eða sem nemur 9,2 milljörðum króna, árið 2024, samanborið við 35 milljóna dala tap árið áður.
Flugfélagið tapaði 39,8 milljónum dala, eða um 5,6 milljörðum króna, á fjórða ársfjórðungi samanborið við 17,2 milljóna dala tap á sama tíma árið áður.
Lausafjárstaða Play við lok árs 2024 var 23,6 milljónir dala, eða um 3,3 milljarðar króna, borið saman við 21,6 milljónir dala í árslok 2023.
Eigið fé félagsins var neikvætt um 33,1 milljón dala, eða um 4,6 milljarða króna í árslok 2024.