Hlutabréfaverð Play hefur hækkað um 22% í vikunni í tiltölulega lítilli veltu.
Dagslokagengi Play í dag var 1 króna en gengi flugfélagsins hefur verið undir einni krónu síðastliðna viku.
Gengi flugfélagsins tók væna dýfu eftir að greint var frá því að félagið stefndi á grundvallarbreytingu á viðskiptalíkaninu samhliða árshlutauppgjöri.
Hagnaður Play á þriðja ársfjórðungi nam um 500 milljónum króna sem er um þriðjungslækkun frá sama fjórðungi í fyrra. Þá var einnig greint frá því að félagið væri að skoða hlutafjáraukningu samhliða því að sækja um flugrekstrarleyfi á Möltu.
Á síðustu dögum hafa forsvarsmenn félagsins verið að kaupa hluti í Play enlíkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag keypti Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play, hlutabréf í flugfélaginu fyrir 8,6 milljónir króna í gær. Skúli keypti 10 milljónir hluta á genginu 0,8575 krónur í gegnum félagið Fea ehf. sem hann á 100% hlut í.
Andri Geir Eyjólfsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Play, keypti einnig í flugfélaginu á föstudaginn síðasta fyrir eina milljón króna.
Hlutabréfaverð Símans hækkaði um tæplega 5% í um 251 milljón króna veltu í dag en gengi Símans hefur nú hækkað um 11% síðastliðinn mánuð.
Þá hækkaði gengi Eimskips um rúm 2% í um 120 milljón króna viðskiptum á meðan gengi gámaflutningafélagsins hefur tekið við sér síðustu tvær vikurnar og hækkað um 11%.
Hlutabréfaverð Alvotech leiddi lækkanir á aðalmarkaði er gengi líftæknilyfjafélagsins fór niður um 4% í tæplega milljarðs króna veltu.
Dagslokagengi Alvotech var 1730 krónur.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,63% og var heildarvelta á markaði 6 milljarðar.