Hluta­bréfa­verð Play hefur hækkað um 22% í vikunni í til­tölu­lega lítilli veltu.

Dagsloka­gengi Play í dag var 1 króna en gengi flug­félagsins hefur verið undir einni krónu síðastliðna viku.

Gengi flug­félagsins tók væna dýfu eftir að greint var frá því að félagið stefndi á grund­vallar­breytingu á við­skiptalíkaninu sam­hliða árs­hluta­upp­gjöri.

Hagnaður Play á þriðja árs­fjórðungi nam um 500 milljónum króna sem er um þriðjungslækkun frá sama fjórðungi í fyrra. Þá var einnig greint frá því að félagið væri að skoða hluta­fjáraukningu sam­hliða því að sækja um flug­rekstrar­leyfi á Möltu.

Á síðustu dögum hafa for­svars­menn félagsins verið að kaupa hluti í Play enlíkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag keypti Skúli Skúla­son, vara­for­maður stjórnar Play, hluta­bréf í flug­félaginu fyrir 8,6 milljónir króna í gær. Skúli keypti 10 milljónir hluta á genginu 0,8575 krónur í gegnum félagið Fea ehf. sem hann á 100% hlut í.

Andri Geir Eyjólfs­son, fram­kvæmda­stjóri flug­rekstrar­sviðs Play, keypti einnig í flug­félaginu á föstu­daginn síðasta fyrir eina milljón króna.

Hluta­bréfa­verð Símans hækkaði um tæp­lega 5% í um 251 milljón króna veltu í dag en gengi Símans hefur nú hækkað um 11% síðastliðinn mánuð.

Þá hækkaði gengi Eim­skips um rúm 2% í um 120 milljón króna við­skiptum á meðan gengi gáma­flutningafélagsins hefur tekið við sér síðustu tvær vikurnar og hækkað um 11%.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech leiddi lækkanir á aðal­markaði er gengi líftækni­lyfjafélagsins fór niður um 4% í tæp­lega milljarðs króna veltu.

Dagsloka­gengi Al­vot­ech var 1730 krónur.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,63% og var heildar­velta á markaði 6 milljarðar.