Hlutabréfaverð Reita hækkaði um rúmt 1% í 477 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengi fasteignafélagsins 100 krónur.
Dagslokagengi Reita hefur ekki verið hærra síðan í apríl 2022 en félagið birtir árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag.
Gengi Reita hefur nú hækkað um 21% á árinu og 34% síðastliðið ár.
Hlutabréfaverð Alvotech leiddi lækkanir á aðalmarkaði en gengi líftæknilyfjafélagsins fór niður um tæp 2% í 859 milljón króna veltu.
Dagslokagengi Alvotech var 1705 krónur en gengið fór hæst í 2450 krónur í febrúar á þessu ári.
Langmesta veltan var með hlutabréf Marels er gengi félagsins hreyfðist örlítið upp á við í 2,3 milljarða króna viðskiptum.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru erlendir sjóðir að kaupa bréf Íslendinga í Marel samhliða því að þeir skortselja bréf í JBT.
Dagslokagengi Marels var 600 krónur.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,08% og var heildarvelta á markaði 6,6 milljarðar.