Hluta­bréfa­verð Símans hefur hækkað um rúm 3% í tæp­lega 400 milljón króna við­skiptum það sem af er degi.

Gengi fjar­skipta­félagsins hefur nú hækkað um 8% á síðastliðnum tveimur og hálfum við­skipta­dögum. Dagsloka­gengi þriðju­dagsins var 12,6 krónur en gengið stendur nú í 13,6 krónum á hlut.

Í morgun var til­kynnt um við­skipti með um 5 milljónir hluta í félaginu á genginu 13,3 krónur á hlut sem sam­svarar um 66,5 milljón króna við­skiptum.

Veltan jókst síðan tölu­vert rétt fyrir há­degi en 11:29 fóru í gegn við­skipti með 4,15 milljón hluti á genginu 13,5 krónur sem sam­svarar um 56 milljón króna við­skiptum.

Einnig mínútu síðar fóru í gegn við­skipti með 8 milljón hluti í félaginu á genginu 13,5 sem sam­svarar um 108 milljón króna við­skiptum.

Gengið fór síðan í 13,6 krónur á hlut aðeins þremur mínútum síðar er 5 milljón hlutir skiptust um hendur. Sam­svarar það um 68 milljón króna við­skiptum.

Til samanburðar er dagleg velta með bréf Símans rúmlega 7 milljón hlutir.