Hluta­bréfa­verð í fjár­festinga­fé­laginu Skel hækkaði um 6% í Kaup­höllinni í dag í 79 milljón króna við­skiptum. Fé­lagið leiddi einnig hækkanir á markaði í gær og hefur gengið hækkað um 12% í vikunni.

Dagsloka­gengi Skeljar var 13,2 krónur en gengið stóð í 11,7 krónum fyrir helgi. Gengið hefur nú lækkað um rúm 4% síðast­liðinn mánuð en gengið féll um meira en 10% eftir árs­hluta­upp­gjör um miðjan ágúst­mánuð.

Hluta­bréfa­verð málm­leitar­fé­lagsins Amaroq Minerals hækkaði um 3,8% í 256 milljóna króna við­skiptum á ís­lenska First North-markaðnum í morgun. Gengi fé­lagsins stendur nú í 100 krónum eftir 22% hækkun á einum mánuði.

Amaroq Minerals var skráð á ís­lenska First North-vaxtar­markaðinn í byrjun nóvember 2022 en fé­lagið hefur fengið sam­þykkta beiðni um að flytja sig yfir á aðal­markað Kaup­hallarinnar á fimmtu­daginn.

Icelandair hækkar eftir erfiða daga

Gengi Sýnar hækkaði um tæp 3% á markaði í 167 milljón króna veltu. Fast­eigna­fé­lagið Reitir, sem er í sam­runa­við­ræðum við fast­eigna­fé­lagið Eik, fór upp um 1,27%.

Icelandair hækkaði um tæpt prósent í 400 milljón króna við­skiptum en fé­lagið hefur átt erfitt upp­dráttar á markaði eftir að af­komu­spá fé­lagsins var færð niður í síðustu viku.

Dagsloka­gengi Icelandair var 1,57 krónur en greint var frá því í dag að greiningar­fyrir­tækið IFS verð­metur hluta­bréfin á 2,92 krónur og setur mark­gengið á 3,37 krónur.

Lítil velta og lægri úrvalsvísitala

Play lækkaði um 0,62% í 19 milljón króna við­skiptum en gengið hefur ekki verið lægra frá skráningu á First North.

Hamp­iðjan lækkaði um 2,13% í 70 milljón króna við­skiptum. VÍS lækkaði um 1,79% í 26 milljón króna við­skiptum og Kvika fór niður um 1,24% í 124 milljón króna við­skiptum.

Heildar­veltan í Kaup­höllinni var 2,3 milljarðar og lækkaði úr­vals­vísi­talan OMXI 10 um 0,42%.