Hlutabréfaverð í fjárfestingafélaginu Skel hækkaði um 6% í Kauphöllinni í dag í 79 milljón króna viðskiptum. Félagið leiddi einnig hækkanir á markaði í gær og hefur gengið hækkað um 12% í vikunni.
Dagslokagengi Skeljar var 13,2 krónur en gengið stóð í 11,7 krónum fyrir helgi. Gengið hefur nú lækkað um rúm 4% síðastliðinn mánuð en gengið féll um meira en 10% eftir árshlutauppgjör um miðjan ágústmánuð.
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq Minerals hækkaði um 3,8% í 256 milljóna króna viðskiptum á íslenska First North-markaðnum í morgun. Gengi félagsins stendur nú í 100 krónum eftir 22% hækkun á einum mánuði.
Amaroq Minerals var skráð á íslenska First North-vaxtarmarkaðinn í byrjun nóvember 2022 en félagið hefur fengið samþykkta beiðni um að flytja sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar á fimmtudaginn.
Icelandair hækkar eftir erfiða daga
Gengi Sýnar hækkaði um tæp 3% á markaði í 167 milljón króna veltu. Fasteignafélagið Reitir, sem er í samrunaviðræðum við fasteignafélagið Eik, fór upp um 1,27%.
Icelandair hækkaði um tæpt prósent í 400 milljón króna viðskiptum en félagið hefur átt erfitt uppdráttar á markaði eftir að afkomuspá félagsins var færð niður í síðustu viku.
Dagslokagengi Icelandair var 1,57 krónur en greint var frá því í dag að greiningarfyrirtækið IFS verðmetur hlutabréfin á 2,92 krónur og setur markgengið á 3,37 krónur.
Lítil velta og lægri úrvalsvísitala
Play lækkaði um 0,62% í 19 milljón króna viðskiptum en gengið hefur ekki verið lægra frá skráningu á First North.
Hampiðjan lækkaði um 2,13% í 70 milljón króna viðskiptum. VÍS lækkaði um 1,79% í 26 milljón króna viðskiptum og Kvika fór niður um 1,24% í 124 milljón króna viðskiptum.
Heildarveltan í Kauphöllinni var 2,3 milljarðar og lækkaði úrvalsvísitalan OMXI 10 um 0,42%.