Hluta­bréfa­verð þýskra bíla­fram­leiðenda lækkaði í fyrstu við­skiptum í kaup­höllinni í Frankfurt í morgun.

Donald Trump var kjörinn for­seti Bandaríkjanna í nótt en eitt stærsta kosninga­lof­orð Trump er að setja tolla á inn­flutning frá Evrópu, Kína og Mexíkó.

Gengi Porsche leiðir lækkanir í DAX-vísitölunni í Þýska­landi er gengi bíla­fram­leiðandans hefur lækkað um 7,4%. Hluta­bréfa­verð BMW hefur lækkað um 7,2% á meðan gengi Mercedes Benz hefur lækkað um 5,6% og gengi Volkswa­gen hefur lækkað um 4,8%.

Sam­kvæmt Bloom­berg munu fyrir­hugaðir tollar Trump hafa mjög neikvæð áhrif á þýska bíla­fram­leiðendur en Bandaríkja­markaður er þeirra langstærsti út­flutnings­markaður.

Í kosninga­baráttunni lofaði Trump sér­stak­lega að setja tolla á þýska bíla­fram­leiðendur til að vernda bandarískan iðnað.

„Ég vil að þýskir bíla­fram­leiðendur verði bandarískir bíla­fram­leiðendur,“ sagði Trump í Savannah Georgia í septem­ber. „Ég vil sjá þá fram­leiða bíla sína hér,“ bætti hann við.

Samkvæmt Bloomberg eru langflestir þýskir bílaframleiðendur með verksmiðjur í Bandaríkjunum.

Volkswagen framleiddi um 175 þúsund bíla í Chattanooga, Tennessee í fyrra en samkvæmt uppgjöri félagsins hefur Volkswagen fjárfest um 4,3 milljarða dala í Tennessee frá árinu 2009.

Mercedes Benz framleiðir jepplinga sína fyrir Bandaríkjamarkað í Alabama á meðan BMW er með verksmiðjur í Suður-Karólínu.