Gerð var húsleit á skrifstofum Netflix í París og Amsterdam í morgun vegna rannsóknar á mögulegum skattalagabrotum streymisveitunnar. BBC greinir frá.

Stjórnvöld í Frakklandi og Hollandi hafa unnið saman í málinu frá því að rannsókn hófst í nóvember 2022.

Skrifstofa saksóknara í fjármuna- og efnahagsbrotum (e. National Financial Prosecutor) í Frakklandi heldur utan um rannsóknina af hálfu franskra stjórnvalda. Samkvæmt embættinu snýr rannsóknin að grunsemdum um yfirhylmingu alvarlegra skattsvika og vanframtalinna tekna (e. „off-the-books work“).

Í umfjöllun BBC segir að einnig sé verið að rannsaka skattframtöl Netflix á árunum 2019, 2020 og 2021.

Franski fjölmiðillinn La Lettre hélt því fram í fyrra að fram til ársins 2021 hafi Netflix í Frakklandi lágmarkað skattgreiðslur sínar með því að gefa upp tekjur sem félagið aflaði í Frakklandi í Hollandi. Eftir að Netflix féll frá þessu fyrirkomulagi jókst árleg velta streymisveitunnar í Frakklandi úr 47,1 milljón evra árið 2020 í 1,2 milljarða evra árið 2021, samkvæmt La Lettre.

Skrifstofa Netflix í Amsterdam eru höfuðstöðvar streymisveitunnar í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.

Netflix hóf starfsemi í Frakklandi fyrir 10 árum síðan og opnaði skrifstofur í París árið 2020. Streymisveitan er með um 10 milljónir áskrifenda í Frakklandi.