Vörumerkjastofan Tvist hóf göngu sína árið 2016 en stofan varð til í kringum viðskipti við Símann. Meðal viðskiptavina Tvist í dag eru almannaheillafélög á borð við Krabbameinsfélagið en Tvist hefur séð um stórar herferðir á vegum félagsins á undanförnum árum.
„Það getur verið áskorun fyrir félag að vera með stór vörumerki á sínum snærum. Í tilfelli Krabbameinsfélagsins eru þau með Bleiku slaufuna og Mottumars sem eru bæði risastór og njóta í raun og veru meiri athygli en sjálft móðurvörumerkið. Það þarf því að að nálgast þetta á réttan hátt af því að tíu mánuði ársins eru þau ekki með Bleiku slaufuna eða Mottumars í loftinu og við höfum verið að aðstoða þau við að byggja brú þarna á milli,“ segir Kári Sævarsson, stofnandi og listrænn stjórnandi Tvist.
Þannig hefur stofan komið að því að þróa vörumerki Krabbameinsfélagsins sjálfs og búa til nýjan heim í kringum það, samfara nýrri vefsíðu. Bleikur október stendur nú yfir og sér Tvist um auglýsingaherferð Krabbameinsfélagsins að því tilefni en þema herferðarinnar í ár er hlutverk aðstandenda.
„Það var kominn tími á að gefa þeim sviðið enda leika aðstandendur stórt hlutverk í lífi þeirra sem greinast með krabbamein. Stóra auglýsing Bleiku slaufunnar fjallar í ár um konu sem greinist með krabbamein og samband hennar við fólkið sem stendur henni nærri. Hjartnæm saga sem Álfheiður Marta hjá Norður mótaði og kom til skila á fallegan hátt,“ segir Kári.
„Það er vel þekkt að auglýsingar sem byggja á söguþræði snerta fólk tilfinningalega og geta haft mikil áhrif. Með því að leggja áherslu á það hversu miklu hvert og eitt okkar getur breytt í glímunni við krabbamein finnst okkur það hafa tekist að slá tón sem auðvelt er að láta hljóma í gegnum allt efni, hvort sem það er umfjöllun og almannatengsl, viðburðir, reynslusögur, hefðbundið auglýsingaefni eða stafrænt efni. Í svona herferð skiptir heildin miklu máli.“
Að sögn Kára er þónokkur munur á að vinna með almannaheillafélögum samanborið við fyrirtæki almennt.
„Þegar við vinnum fyrir félög sem lifa á styrktarfé er mikil krafa um að því sé ráðstafað vel. Við upplifum hins vegar velvilja í samfélaginu sem verður til þess að oft er hægt að gera markaðsefni sem hefur umtalsverðan slagkraft og þar opnast okkur dyr sem væru ekki opnar venjulegum fyrirtækjum,“ segir hann.
„Í tilfelli almannaheillaauglýsinga vinnum við gjarnan með málefni sem fólk hefur samúð með, er sammála og vill heyra um, á meðan það er áskorun í auglýsingum fyrir hagnaðardrifin fyrirtæki að sveipa hluti, sem eru kannski ekki ofarlega á lista hjá fólki, dýrðarljóma. Það er einhver mesti mesti sigur auglýsingafólks að fá fólk til að finnast það sem er hversdagslegt áhugavert.“
Nánar er rætt við Kára í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.