Gerðardómur Viðskiptaráðs Íslands (GVÍ) er sjálfstæð gerðardómsstofnun sem starfar innan vébanda ráðsins. Baldvin Björn Haraldsson, formaður stjórnar GVÍ, segir að þrátt fyrir að gerðardómsmeðferð sé mjög algeng á erlendri grundu sé hún enn sem komið er ekki mikið nýtt hér á landi. Samningum milli íslenskra fyrirtækja sem innihaldi ákvæði um úrlausn deilumála fyrir gerðardómi hafi þó fjölgað verulega undanfarið.
„Úti í hinum stóra heimi er almennt talið að nálægt 90% af stærri alþjóðlegum viðskiptasamningum geri ráð fyrir úrlausn ágreiningsmála fyrir gerðardómi. Það er ótrúlegt magn af stærri alþjóðlegum viðskiptasamningum sem eru með slíkt ákvæði. Hér á landi hafa gerðardómsákvæði í samningum ekki verið eins algeng, en stjórn GVÍ og Agla Eir Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri hafa á undanförnum árum vakið athygli lögmanna og stjórnenda í viðskiptalífinu á þeim kostum sem gerðardómsmeðferð hefur í för með sér.“
Meiri sveigjanleiki og styttri tími
Sveigjanlegri málsmeðferð en fyrir almennum dómstólum, styttri málsmeðferðartími, ríkur trúnaður og möguleiki á að skipa sérhæfða dómara sem báðir aðilar treysta til að skera úr um tiltekið deilumál eru að sögn Baldvins Björns meðal helstu kosta gerðardómsmeðferðar.
„Í fyrsta lagi hafa aðilar máls meira forræði yfir málsmeðferðinni en gildir um hina almennu dómstóla. Málsmeðferðin er sveigjanlegri og aðilar geta sem dæmi samið um hvernig gagnaframlagningu, sönnunarfærslu og málflutningi skuli háttað í málinu.
Í öðru lagi tekur þessi málsmeðferð gjarnan styttri tíma heldur en málsmeðferð fyrir almennum dómstólum, auk þess sem kostnaður er oft og tíðum lægri en í málum sem fara dómstóla leiðina, þegar á heildina er litið. Þrátt fyrir það hefur umræðan verið svolítið á þann veg að gerðardómsleiðin sé svo dýr, vegna þess að aðilar þurfa að greiða dómurum og jafnframt gerðardómsstofnuninni sjálfri. Aftur á móti er það gjarnan þannig að styttri málsmeðferðartími getur haft í för með sér verulegt fjárhagslegt hagræði. Annars vegar minnkar beinn kostnaður og hins vegar kostar það mikið fyrir fyrirtæki að standa í málaferlum í nokkur ár því það getur tekið óhemju mikla vinnu og athygli frá stjórnendum þess. Þegar á heildina er litið er það því mín skoðun að í mörgum tilfellum kosti gerðardómsmeðferð minna en að reka mál í gegnum almenna dómstóla.“ Að sögn Baldvins er gert ráð fyrir því að málsmeðferð innan GVÍ ljúki innan sex mánaða. En ef aðilarnir telji skynsamlegt að gefa sér lengri tíma í málsmeðferðina hafi þeir þó möguleika á því.
„Í þriðja lagi er einn af mikilvægustu kostum gerðardómsmeðferðar að trúnaður gildir um málsmeðferðina og niðurstöðu málsins. Aðilar málsins stýra því hversu ríkur trúnaðurinn er um málsmeðferðina og niðurstöðuna og þannig hvert inntak trúnaðarskyldunnar er. Það er því gert ráð fyrir að aðilar geti átt í deilum án þess að þurfa að bera þær á torg. Slíkt getur í ákveðnum tilfellum skipt miklu máli fyrir aðila málsins, ekki síst vegna þess hve mikla umfjöllun málaferli geta fengið í fjölmiðlum og hversu mikil fjárhagsleg áhrif slík umfjöllun getur haft.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.