Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Jón Hilmar Karlsson að greiða þrotabúi föður síns, Karls Wernerssonar, 464,5 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2019. Jóni Hilmari ber einnig að greiða þrotabúinu 21,3 milljónir í málskostnað. Héraðsdómur vísaði þó frá kröfu þrotabúsins um afsal allra hluta í Toska ehf., móðurfélagi Lyf og heilsu og Hljóðfærahússins.
Þrotabúið stefndi Jóni Hilmari í árslok 2018 og fór fram á að rift yrði sölu Karls á Toska til sonar hans Jóns Hilmars árið 2014 fyrir eina milljón króna og að stefnda yrði gert að afsala aftur öllum hlutum í Toska til þrotabúsins.
Fyrir bankahrunið árið 2008 var Karl, ásamt Steingrími bróður sínum umsvifamikill í fjárfestingum í gegnum félagið Milestone, sem átti meðal annars lyfjaverslanirnar áðurnefndu.
En áður en af hruninu varð var eignarhaldið fært til Karls og er hún nú í eigu sonar hans, Jóns Hilmars Karlssonar, í gegnum félagið Toska ehf. sem er eigandi lyfjaverslananna í gegnum félögin Faxa ehf. og Faxar ehf.
Í dómi héraðsdóms var talið að salan á Toska ehf. hefði farið fram fyrir það 24 mánaða tímamark sem mælt væri fyrir um í 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti og var Jón Hilmar því sýknaður af riftunarkröfu á þeim grundvelli. Á hinn bóginn var fallist á að um hefði verið að ræða ótilhlýðilega ráðstöfun Karls í aðdraganda gjaldþrots hans og að hann hefði á því tímamarki sem ráðstöfunin fór fram verið ógjaldfær.
Þá var talið að Jón Hilmar hefði verið grandsamur um ógjaldfærni Karls er hann eignaðist Toska. Var krafa um riftun ráðstöfunarinnar því tekin til greina á grundvelli 141. gr. fyrrgreindra laga og Jóni Hilmari gert að greiða þrotabúinu sem nam tjóni þess vegna sölunnar.
Byggði héraðsdómur frávísun á kröfu þrotabúsins um afsal allra hluta í Toska á þeim rökum að í stefnu sé hvorki vikið að því hvort og þá hvernig þrotabúið hyggst jafna greiðslu í skilningi 144. greinar laga um gjaldþrotaskipti, né sé þar leitast við að sýna fram á hvað teldist eðlilegt virði félagsins yrðu hlutirnir afhentir í dag með stoð í fyrrnefnt ákvæði.