Erlendir aðilar eiga um 19% hlut af bókfærðu eigin fé 500 stærstu fyrirtækjum landsins samkvæmt greiningu Viðskiptablaðsins. Rekja má nærri helming þess eignarhlutar til álveranna þriggja og járnblendiverksmiðju Elkem.
Erlend fjárfesting þykir hlutfallslega lág hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar inn í landið af vergri landsframleiðslu var um 29% árið 2022 og var Ísland í 48. sæti af 67 á þann mælikvarða samkvæmt skýrslu IMD viðskiptaháskólans í Sviss.
Lítil erlend fjárfesting kann m.a. að skýrast af hömlum á erlenda fjárfestingu sem eru um þrefalt meiri en gengur og gerist meðal OECD-ríkja, líkt og Viðskiptaráð benti á árið 2022.
Í þessu samhengi má einnig benda á að hlutdeild erlendra fjárfesta í skráðum félögum í Kauphöllinni er heldur lítil. Hún var um 5% árið 2022, samkvæmt upplýsingum frá Nasdaq Iceland en kann að hafa aukist að einhverju marki í kjölfar þess að íslenski markaðurinn færðist upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE Russell.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdatjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að þó bein erlend fjárfesting teljist vera hlutfallslega lág hér á landi sé í mörgum tilfellum um mjög þolinmótt fjármagn að ræða.
Þannig hafi t.d. eignarhald í stóriðjunni verið óbreytt nokkuð lengi og gera megi ráð fyrir að innviðasjóður Ardian, sem keypti 90% hlut í Mílu á móti 10% hlut lífeyrissjóða árið 2022, muni fjárfesta enn frekar í innviðum Mílu.
„Sömu sögu má segja af erlendum eigendum HS orku sem hafa deilt eignarhaldinu með lífeyrissjóðum síðan 2011. Þar er viljinn til að fjárfesta í orkuinnviðum mikill og í raun mun meiri heldur en sambærileg fyrirtæki í eigu hins opinbera.“
Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn síðasta, 29. janúar.