Kínverski uppfinningarmaðurinn Jim Wong frá borginni Changzhou hefur hannað leysigeislatæki sem getur hæft moskítóflugur í miðju flugi. Á síðunni My Electric Sparks segir að tækið kallist Photon Matrix.
Jim segir að tækið virki sem nokkurs konar loftvarnarkerfi og sé jafnframt það fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Tækið notast við svokallaða LiDAR-tækni til að finna og útrýma moskítóflugum með nákvæmum leysigeislum.
„Þetta er ekki bara enn annað tæki. Þetta er bylting í baráttu okkar við eitt banvænasta dýr jarðar,“ segir Jim en moskítóflugur valda þúsundum dauðsfalla um allan heim á hverju ári með útbreiðslu ýmissa sjúkdóma.
Mannkynið hefur treyst á skordýraeitur, net og fælandi efni til að berjast gegn pöddunum undanfarna áratugi. Þær aðferðir geta hins vegar skaðað umhverfið og styrkt ónæmiskerfi moskítófluga.
„Tækið er mun öruggara en skordýraeitur og miklu áhrifaríkara. Þú getur notað það í stofunni, garðinum eða jafnvel í dimmu svefnherbergi. Það skiptir engu máli hvar það er eða hvort það sé dagur eða nótt.“