Gistinætur á hótelum í september voru tæplega 512.600 á landsvísu eða um 1,3% færri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru 519.300. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en þar segir að gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum nema á Suðurlandi.

Fækkunin var mest á Austurlandi, eða um 20,5% og á Vesturlandi og Vestfjörðum en þar fækkaði gistinóttum um 10,4%. Á Suðurnesjum fækkaði þeim um 4,6% og á Norðurlandi um 3,4%.

„Samdráttinn mátti nær alfarið rekja til fækkunar á gistinóttum erlendra ferðamanna en alls töldu þær um 419.400 (82% af gistinóttum hótela) sem var 3,4% fækkun miðað við fyrra ár. Gistinætur Íslendinga á hótelum voru hins vegar tæplega 93.200, eða 18% gistinótta, og fjölgaði þeim nokkuð frá fyrra ári eða um 9,7%,“ segir í greiningu Hagstofunnar.

Framboð hótelherbergja jókst hins vegar í september um 3,0% miðað við sama tíma árið 2023. Herbergjanýting dróst aftur á móti saman í öllum landshlutum og mældist samdrátturinn um 3,0 prósentustig á landinu í heild sinni.