Gleðipinnar, sem reka meðal annars Keiluhöllina í Egilshöll, Saffran, Hamborgarafabrikkuna, American Style og fleiri veitingastaði, hafa komist að samkomulagi við fráfarandi eigendur Rush Trampólíngarðsins um kaup á garðinum. Um er að ræða stærsta innandyra trampólín- og afþreyingargarð á Íslandi sem notið hefur mikilla vinsælda hjá börnum hér á landi undanfarin ár.
„Við Gleðipinnar tókum við rekstri Keiluhallarinnar í Egilshöll árið 2015 og búum því að góðri reynslu við að reka afþreyingargarða. Rush Trampólíngarðurinn er vel sóttur og vinsæll valkostur hjá yngri kynslóðunum og hlökkum við mikið til að taka við rekstrinum og tryggja hann í sessi til framtíðar. Við setjum okkur sömu markmið og í Keiluhöllinni, að hámarka upplifun viðskiptavina okkar. Eitt af sóknarfærunum sem við sjáum er að auka við framboðið af veitingum í garðinum,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.
Fjölbreyttur og reynslumikill hópur mun koma að rekstri Rush. Þórey Gunnlaugsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin ár og mun áfram sinna því hlutverki og njóta liðsinnis og reynslu stjórnunarteymisins úr Keiluhöllinni. „Þetta eru merkileg tímamót og framundan eru spennandi verkefni sem við hlökkum til að takast á við með Gleðipinnum. Það er ekki spurning um að þeirra víðtæka og farsæla reynsla af fyrirtækjarekstri mun koma sér afar vel hjá Rush og við erum klár í slaginn. Við erum spennt fyrir því að bæta góðu fóki við samheldinn hóp og gera frábæran garð enn betri,“ segir Þórey.
Tækifæri í samnýtingu ferla
Andrea Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Keiluhallarinnar, og María Rún Hafliðadóttir, mannauðsstjóri Gleðipinna, munu taka sæti í stjórn Rush Trampólíngarðsins og styðja við áframhaldandi vöxt staðarins. „Við í Keiluhöllinni sjáum mikil tækifæri á að samnýta okkar ferla og dreifileiðir í sölu- og markaðsmálum og bókunum. Það mun auka við þjónustustigið og vera til bóta fyrir viðskiptavini bæði Keiluhallarinnar og Rush Trampólíngarðsins,“ segir Andrea.
Gleðipinnar bíða ekki boðanna og á næstu vikum verða m.a. dýnurnar í Rush Trampólíngarðinum endurnýjaðar. „Afþreyingarrekstur líkt og veitingarekstur kallar á stöðugar endurbætur og fjárfestingar í sjálfum rekstrinum. Þannig næst upp stöðugleiki og upplifun viðskiptavina er tryggð,“ bætir Jói við.
Veitingastaðir og vörumerki í rekstri Gleðipinna eru eftirtalin: American Style, Shake&Pizza, Keiluhöllin, Saffran, Blackbox, Djúsí by Blackbox, Eldsmiðjan, Aktu taktu, Hamborgarafabrikkan, Pítan og Rush Trampólíngarðurinn.