Seðlabanki Íslands hefur veitt Glymi hf. aukið starfsleyfi sem rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að það sé í samræmi við upphaflegar fyrirætlanir félagsins, að styðja við vöxt þess með fjölbreyttum möguleikum til aukinna umsvifa.
„Með nýju leyfi fær félagið til dæmis heimildir til markaðssetningar hlutdeildarskírteina sjóða fyrir almenna fjárfesta. Leyfið styrkir vöruframboð félagsins og eykur ávöxtunarmöguleika fleiri fjárfesta þar sem framboð félagsins nær nú til stærri hóps,“ segir Guðmundur Björnsson, framkvæmdastjóri Glyms.
Í fréttatilkynningu segir að Fossar fjárfestingarbanki og Guðmundur Björnsson hafi stofnað Glym vorið 2021, með áherslu á sérhæfðar fjárfestingar, einkum óskráðar skuldabréfa- og lánaafurðir, auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta. Fyrir liggi að hluthafar VÍS hafi samþykkt kaup á Fossum fjárfestingarbanka og sé Glymur hluti af þeirri framtíðarsýn.
Guðrún Una ráðin til Glyms
Samhliða auknum umsvifum hafi Glymur ráðið til sín Guðrúnu Unu Valsdóttur, sem áður var hjá Landsbréfum/Landsbankanum og hefur yfir tuttugu ára reynslu í eignastýringu. Guðrún Una stýrði skuldabréfateymi rekstrarfélags Landsbankans í tíu ár, starfaði sem verðbréfamiðlari í miðlun Landsbankans í tvö ár og hefur síðustu átta ár starfað sem fjárfestingarstjóri í eignastýringarteymi bankans sem meðal annars stýrir Íslenska lífeyrissjóðnum.
Guðrún Una nam viðskiptafræði við Háskóla Íslands, lauk þaðan M.Sc. gráðu í fjármálum og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Þá er Guðrún Una með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið framhaldsnámi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.