Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um hvernig viðskiptahagkerfinu vegnaði á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Í blaðinu voru sjö atvinnugreinar bornar saman, þar á meðal ferðaþjónusta, tækni- og hugverkaiðnaður, sjávarútvegur, byggingageirinn og fasteignaviðskipti. Þar að auki er fluggeirinn skoðaður, sem flokkast undir ferðaþjónustu.
Af þeim sjö greinum sem fjallað er um var byggingageirinn sá arðbærasti á síðasta ári. Arðsemi eigin fjár byggingageirans jókst talsvert á milli ára, fór úr 15,7% árið 2020 í 23,6% árið 2021. Hagnaður greinarinnar tvöfaldaðist á milli ára og nam rúmum 30 milljörðum króna. Eitt af því sem gæti skýrt bætta afkomu er umfang framkvæmda í hagkerfinu, en fjöldi íbúða í byggingu jókst talsvert á milli ára á síðasta ári.
Ferðaþjónustan snýr aftur
Ferðaþjónustan á Íslandi er loks tekin að rísa á ný á árinu 2022, en atvinnugreinin var einungis sú fimmta stærsta í veltu árið 2021 eftir að hafa verið næst stærst árið 2019 fyrir faraldurinn.
Í október síðastliðnum kynnti ráðgjafarfyrirtækið Intellecon, fyrir hönd Ferðamálastofu, spár um meginstærðir í ferðaþjónustu á næstu árum. Þar kom meðal annars fram spá um 2,3 milljónir ferðamanna árið 2023. Það er svipaður fjöldi og heimsótti Ísland á metárinu 2018. Á þar næsta ári gerir spáin ráð fyrir að nýtt Íslandsmet verði slegið með komu um 2,8 milljóna ferðamanna, og að árið 2025 verði ferðamennirnir orðnir 3 milljónir talsins. Til samanburðar var heildarfjöldi erlendra ferðamanna á Covid-árunum 2020- 2021 einungis um 1,2 milljónir.
Á árinu 2020 nam tap ferðaþjónustunnar 89 milljörðum króna. Greinin tók nokkuð við sér ári síðar þegar tapið nam einungis 3,6 milljörðum króna. Það sem keyrði tap ferðaþjónustunnar á síðasta ári var mikið tap í flugrekstri. Þegar litið er til farþegaflutninga með flugi, þar sem flugfélög á borð við Icelandair og Play heyra undir, nam tapið tæpum 16 milljörðum króna í fyrra, fjórfalt meira en tap ferðaþjónustunnar í heild sinni.
Nánar er fjallað um viðskiptahagkerfið á síðasta ári í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.