Samkvæmt greiningu fjárfestingarbankans Goldman Sachs hefur S&P 500-vísitalan sett 18 met á árinu, studd af öflugri afkomu bandarískra fyrirtækja, einkum vegna fjárfestinga í gervigreind, og væntingum um mildari peningastefnu Seðlabanka Bandaríkjanna.
Lækkandi ávöxtunarkrafa og lítil verðsveifla hafa einnig stutt við hækkunarhrinuna.
VIX-vísitalan, sem byggir á verði valrétta tengdum S&P 500-vísitölunni og er almennt notuð sem mælikvarði á óvissu á fjármálamörkuðum hefur verið að lækka.
Vísitalan fór niður fyrir 14,5 stig í vikunni, sem er lægsta gildi síðan í desember.
Greiningarteymið, leitt af Christian Mueller-Glissmann og Andrea Ferrari, varar þó við að nú sé um að ræða „óhagstæðari“ stöðu en á fyrri tímabilum með lítilli sveiflu.
Möguleikar á mikilli hækkun S&P 500 til viðbótar eru takmarkaðir og eru að mati bankans meiri líkur á stórum lækkunum.
S&P 500 hefur hækkað að miklu leyti vegna verðmatsaukningar, á sama tíma og álag á skuldabréf hefur minnkað.
Goldman telur að markaðurinn hafi ekki fullkomlega verðlagt inn áhættuna af hægari hagvexti og þrálátri verðbólgu sem auknir tollar geti valdið.
Óvissa um tollastefnu gæti jafnframt tafið fyrir þeim vaxtalækkunum sem fjárfestar vonast eftir og geópólitísk áhætta sé enn til staðar.
Samkvæmt líkindalíkani Goldman um verðlækkun S&P 50, hefur hættan á verulegri lækkun aukist svipað og í apríl þegar Donald Trump kynnti umfangsmikla tolla.
Hærra verðmat og veikara efnahagur, einkum vegna slakari vinnumarkaðsgagna, hafi ýtt undir þessa áhættu.
Hagfræðingar bankans búast við veikum hagvexti í Bandaríkjunum á síðari hluta ársins, sem gæti leitt til meiri vaxtalækkana, en einnig meiri sveiflum á hlutabréfamörkuðum.
Goldman heldur áfram að mæla með „hlutlausri eignadreifingu” tímabundið. Fjárfestar ættu að vera yfirvigtaðir í reiðufé, í hlutlausri stöðu í hlutabréfum, skuldabréfum og undirvigtaðir í hrávörum.
Bestu varnir í nýmarkaðsríkjum og Evrópu
Bankinn mælir me þvíð að nýta tiltölulega ódýra valréttarsamninga með rétt til að selja (e. put spread) til að verja sig gegn lækkun á hlutabréfamarkaði.
Greining Goldman, sem byggir á samanburði á 10 ára meðaltalsávöxtun valrétta við núverandi verð, bendir til þess að söluvalréttir (put options) á tilteknum nýmarkaða- og Evrópuhlutabréfum séu hagstæðir sem lækkunarvörn. Þar á meðal eru brasilíski Bovespa-vísitalan, indverska Nifty 50 og kínverska CSI 300.
Jafnframt bendir bankinn á að kaupréttir (call options) á S&P 500 equal weight vísitöluna – þar sem öll félög vísitölunnar hafa jafnt vægi óháð stærð – gætu hagnast ef hækkunarhrinan breikkar út fyrir stór tæknifyrirtæki.