Sam­kvæmt greiningu fjár­festingar­bankans Gold­man Sachs hefur S&P 500-vísi­talan sett 18 met á árinu, studd af öflugri af­komu bandarískra fyrir­tækja, einkum vegna fjár­festinga í gervi­greind, og væntingum um mildari peninga­stefnu Seðla­banka Bandaríkjanna.

Lækkandi ávöxtunar­krafa og lítil verð­sveifla hafa einnig stutt við hækkunar­hrinuna.

VIX-vísi­talan, sem byggir á verði val­rétta tengdum S&P 500-vísitölunni og er al­mennt notuð sem mæli­kvarði á óvissu á fjár­málamörkuðum hefur verið að lækka.

Vísi­talan fór niður fyrir 14,5 stig í vikunni, sem er lægsta gildi síðan í desember.

Greiningar­teymið, leitt af Christian Mueller-Gliss­mann og Andrea Ferrari, varar þó við að nú sé um að ræða „óhagstæðari“ stöðu en á fyrri tíma­bilum með lítilli sveiflu.

Mögu­leikar á mikilli hækkun S&P 500 til viðbótar eru tak­markaðir og eru að mati bankans meiri líkur á stórum lækkunum.

S&P 500 hefur hækkað að miklu leyti vegna verðmats­aukningar, á sama tíma og álag á skulda­bréf hefur minnkað.

Gold­man telur að markaðurinn hafi ekki full­kom­lega verðlagt inn áhættuna af hægari hag­vexti og þrálátri verðbólgu sem auknir tollar geti valdið.

Óvissa um tolla­stefnu gæti jafn­framt tafið fyrir þeim vaxtalækkunum sem fjár­festar vonast eftir og geópólitísk áhætta sé enn til staðar.

Sam­kvæmt líkindalíkani Gold­man um verðlækkun S&P 50, hefur hættan á veru­legri lækkun aukist svipað og í apríl þegar Donald Trump kynnti um­fangs­mikla tolla.

Hærra verðmat og veikara efna­hagur, einkum vegna slakari vinnu­markaðs­gagna, hafi ýtt undir þessa áhættu.

Hag­fræðingar bankans búast við veikum hag­vexti í Bandaríkjunum á síðari hluta ársins, sem gæti leitt til meiri vaxtalækkana, en einnig meiri sveiflum á hluta­bréfa­mörkuðum.

Goldman heldur áfram að mæla með „hlutlausri eignadreifingu” tímabundið. Fjárfestar ættu að vera yfirvigtaðir í reiðufé, í hlutlausri stöðu í hlutabréfum, skuldabréfum og undirvigtaðir í hrávörum.

Bestu varnir í ný­markaðsríkjum og Evrópu­

Bankinn mælir me þvíð að nýta til­tölu­lega ódýra val­réttar­samninga með rétt til að selja (e. put spread) til að verja sig gegn lækkun á hluta­bréfa­markaði.

Greining Goldman, sem byggir á samanburði á 10 ára meðaltalsávöxtun valrétta við núverandi verð, bendir til þess að söluvalréttir (put options) á tilteknum nýmarkaða- og Evrópuhlutabréfum séu hagstæðir sem lækkunarvörn. Þar á meðal eru brasilíski Bovespa-vísitalan, indverska Nifty 50 og kínverska CSI 300.

Jafnframt bendir bankinn á að kaupréttir (call options) á S&P 500 equal weight vísitöluna – þar sem öll félög vísitölunnar hafa jafnt vægi óháð stærð – gætu hagnast ef hækkunarhrinan breikkar út fyrir stór tæknifyrirtæki.