Alphabet, móðurfélag Google, hefur fallið frá áformum um yfirtöku á netöryggisfyrirtækinu Wiz. Síðarnefnda félagið stefnir í staðinn á skráningu á hlutabréfamarkað. Wall Street Journal greinir frá.
Greint var frá því í síðustu viku að Alphabet ætti í viðræðum um að kaup á Wiz fyrir tæplega 23 milljarða dala, sem hefðu orðið stærstu kaup í sögu netrisans.
Samrunaviðræðunum hefur nú verið slitið, m.a. þar sem fyrirtækin náðu ekki saman um hvort Wiz yrði rekið sem sjálfstætt félag innan Alphabet eða samþætt inn í skýjaþjónustuhluta samstæðunnar, og áhyggjur af leyfisveitingarferlinu.
Forstjóri Wiz, Assaf Rappaport, sagði í tölvupósti til starfsmanna, að félagið væri upp með sér vegna áhugans en að það hafi ákveðið að halda áfram á sínu vaxtaferli. Netöryggisfyrirtækið stefni á frumútboð eftir að árlegar áskriftartekjur verða komnar yfir einn milljarð dala en þær eru í dag í kringum 500 milljónir dala.