Alphabet, móðurfélag Google, á í viðræðum um að kaupa netöryggisfyrirtækið Wiz fyrir tæplega 23 milljarða dala, samkvæmt heimildarmönnum Finanical Times. Gangi það eftir þá yrði þetta stærsta yfirtaka í sögu tæknifyrirtækisins.
Viðmælendur FT segja að nokkrar vikur séu í að viðræðunum ljúki og að ekki sé víst um að samkomulag náist um viðskiptin. Enn eigi eftir að útkljá fjölda atriða.
Þá segir í umfjölluninni að mögulegur samruni gæti reynst prófmál hjá samkeppnisyfirvöldum sem hafa undanfarin ár unnið að því að leggja stein í götu stórra fyrirtækja að kaupa upp upprennandi fyrirtæki í sama geira.
Yfirtaka á Wiz myndi marka frekari sókn Alphabet á sviði netöryggis en félagið keypti annað netöryggisfyrirtæki, Mandiant, á 5,4 milljarða dala fyrir tveimur árum.