Umsvif Górilla Vöruhúss hafa aukist á þessu ári en til marks um það hefur fyrirtækjum sem nýta sér þjónustu þess fjölgað um 35% frá áramótum, úr 55 í 74.

Þá jókst velta félagsins um 50% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra, úr rúmlega 30 milljónum króna án virðisaukaskatts í rúmlega 45 milljónir án virðisaukaskatts. Fjöldi afgreiddra pantana jókst um 40% á fjórðungnum, úr 9.264 pöntunum í fyrra í 13.295 á þessu ári. Að auki jókst fjöldi afgreiddra stykkja um 25% á fyrsta ársfjórðungi úr 1.158.518 stykkjum árið 2022 í 1.444.925 stykki í ár.

Egill Fannar Halldórsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Górilla Vöruhúss, segir aukin umsvif tengjast því að fyrirtæki séu í ljósi efnahagsástandsins í landinu að leita allra leiða til að hagræða í sínum rekstri með því að einfalda hann og lækka fastan kostnað. Mestur áhugi komi frá heildsölum með smávöru og sérhæfðum netverslunum.

„Með okkar þjónustu geta íslensk fyrirtæki útvistað stórum hluta rekstursins til okkar. Þannig þurfa þau ekki að vera með eigið húsnæði undir vörurnar, enga bíla í rekstri og ekkert starfsfólk á gólfinu. Fyrirtækin í landinu eru eðlilega að halda að sér höndum eins og staðan er í dag og leita allra leiða til að lækka kostnað. Þessi aukni áhugi sem við finnum fyrir á þjónustunni okkar á rætur sínar að rekja til þess að fyrirtækin vilja lækka óvæntan kostnað, losa um fastan kostnað og geta brugðist betur við sveiflum í rekstri. Kostnaður tengdur húsnæði, hvort sem það er af eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, hefur hækkað mikið á síðustu árum og það sama má segja um starfsmannakostnað. Hækkun á almennum rekstrarkostnaði hefur orðið til þess að fyrirtæki eru að huga mun meira að heildarmyndinni.“

Egill Fannar Halldórsson, framkvæmdastjóri Górilla Vöruhúss.
© Aðsend mynd (AÐSEND)