Grábrók viskí fór nýlega sölu hjá breska alheimsdreifingaraðilanum Master of Malt en fyrirtækið hefur sérhæft sig í sölu á viskíi í rúm 30 ár. Að sögn eiganda hefur sala gengið ótrúlega vel fyrstu dagana og er viskíið meðal mest seldu vörutegunda.

Viskíið er framleitt af Pure Spirits í Borgarnesi en fyrirtækið framleiðir viskíið með því að blanda saman átta ára gömlu skosku viskíi við íslenskt vatn.

Magnús Arnar Arngrímsson, eigandi Pure Spirits, segir að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum en Grábrók hefur hingað til verið mest seld í fríhöfninni.

„Við áttum von á góðum viðtökum þar sem við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn erlendis frá. Það er mikið gleðiefni að geta loksins boðið upp á Grábrók á alheimsvísu og mætt þessari eftirspurn sem við höfum fundið fyrir í töluverðan tíma.“

Viskíið í Grábrók er fyrst framleitt í Skotlandi, eftir ströngum skoskum hefðum, og er síðan flutt til Íslands þar sem það er blandað með íslensku vatni úr vatnslindinni Grábrók í Borgarfirði.

„Með því að tvinna saman aldagamlar margverðlaunaðar viskíhefðir frá Skotlandi og íslenskt vatn, sem nýtur náttúrulegrar filtrunar í gegnum þúsund ára gamalt hraun, sameinast það besta frá báðum löndum og úr verður Grábrók.“