Úrvalsvísitalan hefur hækkað um tæp tvö prósent í 1,7 milljarða króna viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Tuttugu af 22 félögum aðalmarkaðarins hafa hækkað í fyrstu viðskiptum dagsins.
Hlutabréf tryggingafélaganna hafa hækkað mest allra, Sjóvá um 3,92% í 100 milljóna króna viðskiptum og Vís um 3,88% í 240 milljóna króna viðskiptum. Þá hefur fasteignafélagið Eik hækkað um 3,3% í tæpum 50 milljóna króna viðskiptum.
Mesta veltan hefur verið með hlutabréf Kviku banka eða nærri 270 milljónir króna en gengi bankans hefur hækkað um 3,5% og stendur í 18,5 krónum þegar fréttin er skrifuð.
Nova og Skel fjárfestingafélög eru einu félögin sem hafa lækkað í viðskiptum dagsins. Nova hefur lækkað um 0,5% og stendur gengi félagsins í 4,02 krónum. Þá hefur Skel lækkað um 3,1% í óverulegum viðskiptum.