Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og HS Orka hafa undirritað samkomulag um grænan iðngarð á Reykjanestá. Grænn iðngarður er iðngarður þar sem fyrirtæki vinna saman til að styðja við sjálfbærni, deila og fullnýta auðlindir sín á milli.
Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja og miðar að því að skilgreina hentuga umgjörð og samstarfsvettvang þeirra framleiðslufyrirtækja sem nýta auðlindastrauma beint frá Reykjanesvirkjun.
Í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir verður sérstaklega horft til þess hvaða kröfum fyrirtækin og samfélag þeirra þurfa að fullnægja til að uppfylla skilyrði um sjálfbærni í samræmi við stefnu stjórnvalda.
„Ef eitthvað svæði á Íslandi getur skilgreint sig sem grænan iðngarð þá ætti það að vera samfélagið umhverfis Reykjanesvirkjun. HS Orka hefur byggt upp mikla þekkingu og reynslu í sjálfbærnimálum og við hlökkum til að deila henni með fleirum,“ segir Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar, framfara og Auðlindagarðsins hjá HS Orku.
Í dag eru fyrirtækin Haustak, Laugafiskur og Stolt Sea Farm beintengd HS Orku með ýmsa auðlindastrauma. Fleiri fyrirtæki eru í farvatninu og þeirra stærst er Samherji fiskeldi sem hefur þegar hafið framkvæmdir við undirbúning á eldisgarði í næsta nágrenni við virkjunina.
„Með þessu móti getum við enn betur en áður deilt þekkingu á sviði sjálfbærni, safnað gögnum og gert þau aðgengileg. Verkefnið gerir okkur auk þess kleift að meta samfélagslegan og efnahagslegan ábata nærsamfélagsins af þessum samstarfsvettvangi fyrirtækjanna á Reykjanestá,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.