Nýsköpunar- og tæknifyrirtækið GreenFish hefur lokið sinni fyrstu fjármögnunarlotu. Félagið segir fjármögnunina gera sér kleift að styrkja þróun lausna GreenFish, auk sölu- og markaðsstarfs á erlendum mörkuðum.
GreenFish þróar gervigreindarlíkön sem eru þjálfuð á ofurtölvum með gervihnattagögnum til að veita félögum í sjávarútvegi tíu daga spá um staðsetningu fisks, ásamt mati á magni, gæðum og samsetningu afla fyrir öll heimsins höf.
„Við erum virkilega stoltir af þeim öfluga liðsauka sem félagið fær með tilkomu nýrra hluthafa. Hópurinn býr yfir gríðarlegri þekkingu og endurspeglar þann mikla metnað sem félagið hefur til áframhaldandi hraðs vaxtar,“ segja stofnendur félagsins.
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance var ráðgjafi félagsins í fjármögnunarferlinu en BBA/Fjeldco veitti félaginu lögfræðilega ráðgjöf.
GreenFishhefur vann Íslensku sjávarútvegsverðlaunin í flokki Skilvirkni í sjávarútvegi og fiskeldi, fyrirtæki með undir 50 starfsmenn. Jafnframt vann félagið nýsköpunarverðlaun sjávarafurða 2025 í Noregi. Auk þess hlaut félagið sjálfbærnisstyrk frá Landsbankanum, nýsköpunarstyrk frá Íslandsbanka og Vaxtarstyrk frá Tækniþróunarsjóði.
Ekki er gefið upp hversu mikið fjármagn félagið sótti í ofangreindri fjármögnun.