Davíð Rafn Kristjánsson og Stefán Darri Þórsson eru stofnendur Swapp Agency sem býður fyrirtækjum einfalda lausn við að setja upp starfsfólk í fjarvinnu í öðrum löndum og greiða því sem launþega. „Við gerum þar til gerða samninga við vinnuveitandann, borgum fjarvinnustarfsmanninum laun og greiðum skatta og launatengd gjöld. Síðan rukkum við vinnuveitandann fyrir það sem samsvarar greiðslu launa og launatengdra gjalda í viðkomandi landi auk þóknunar,“ segir Stefán Darri. Þá er Swapp Agency í samstarfi við svokölluð samvinnurými á Norðurlöndunum og félög sem veiti aðstoð við umsókn um atvinnuleyfi. „Við viljum geta veitt fólki í fjarvinnu heildstæða lausn og stefnum á að verða fyrsti kostur fólks í þessari stöðu á Norðurlöndunum,“ segir Davíð Rafn.

Stefán Darri nefnir að þetta leysi vandamál sem mörg fyrirtæki standi frammi fyrir þegar kemur að fjarvinnu á milli landa. Flækjustigið sé hátt og erfitt að sjá hagkvæmni í því að stofna félag í öðru landi til að greiða laun fyrir kannski einn starfsmann. „Fyrirtæki standa þá frammi fyrir því að ákveða hvort þau vilji annaðhvort stofna félag í fjarvinnulandinu eða að launamaðurinn gerist verktaki.“

Davíð Rafn nefnir að skortur á hugviti í tæknigeiranum hafa verið mikið til umræðu undanfarið. „Þessi skortur er mjög áþreifanlegur enda erum við mest að þjónusta tæknigeirann hér á landi sem bráðvantar forritara, hugbúnaðarverkfræðinga, hönnuði og arkitekta. Við fögnum viðleitni stjórnvalda til að bæta úr þessu, en þó að greitt verði fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins þá er heimurinn einfaldlega að þróast þannig að störf eru ekki lengur bundin við staðsetningu vinnuveitandans."

Stefán Darri tekur undir þetta og segir mikla hugarfarsbreytingu hafa átt sér stað í heimsfaraldrinum. Fólk átti sig núna betur á því að ef það getur unnið heiman frá sér þá geti það unnið hvar sem er í heiminum. „Fólk er að flytja til annarra landa og starfa í fjarvinnu. Fyrirtækin geta nýtt sér okkar lausn til að auðvelda launagreiðslur undir þessum kringumstæðum.“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði