Saudi Aramco, stærsti olíuframleiðandi heims sem er að mestu í eigu sádí-arabíska ríkisins, hyggst greiða út 31,05 milljarða dala í arð til hluthafa sinna.
Félagið greindi frá þessu samhliða birtingu uppgjörs annars ársfjórðungs þar sem kom í ljós að það hagnaðist um 29,07 milljarða dala. Til samanburðar nam hagnaður sama fjórðungs árið 2023 30,83 milljörðum dala.
Hagnaður olíuframleiðandans á öðrum ársfjórðungi fór fram út væntingum greiningaraðila sem höfðu reiknað með 27,7 milljarða dala hagnaði.
Eins og fyrr segir er sádí-arabíska ríkið lang stærsti hluthafi olíuframleiðandans og treysta stjórnvöld þar í landi mikið á arðgreiðslur úr gullgæsinni Saudi Aramco til að fjármagna hin ýmsu kostnaðarsömu verkefni.